Innlent

Rauði kross Íslands veitir 12,3 milljónir króna í aðgerðir við Miðjarðarhaf

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Talið er að um 3000 flóttamenn hafi drukknað í Miðjarðarhafi það sem af er ári.
Talið er að um 3000 flóttamenn hafi drukknað í Miðjarðarhafi það sem af er ári. Vísir/Getty
Rauði Kross Íslands hefur ákveðið að veita Rauða Krossinum á Ítalíu um 12,3 milljónir króna sem aðstoð við björgunaraðgerðir í Miðjarðarhafi. Einnig er búist við því að íslenskur hjúkrunarfræðingur komi að björgunarstarfinu þar á næstu vikum á þeirra vegum.

Hjálparstarfsmenn við Miðjarðarhaf hafa á þessu ári reynt sitt til þess að bjarga mannslífum í Miðjarðarhafi en þúsundir flóttafólks hefur freistað þess að komast til Evrópu frá Norður-Afríku á bátum. Á þessu ári hafa nú þegar um þrjú þúsund flóttamenn drukknað á leið sinni til Ítalíu eftir að landamærum Makedóníu til Evrópu var lokað. Í kjölfarið sendu Rauði Krossinn þarlendis,  Alþjóðasamband landsfélaga Rauða krossins og Rauði hálfmáninn út neyðarkall og er peningagjöfin svar hjálparsamtakana hérlendis við því.

Drónar og björgunarskip

Rauði krossinn á Ítalíu fylgist með ítölsku landhelginni með drónum og björgunarskipum. Fram til þessa hefur aðeins eitt skipt verið á verði frá Rauða krossinum en nú hefur öðru skipi verið bætt við.Talið er að aðgerðirnar nái til um 160 þúsund flóttamanna í heild sinni. Hjálparsamtök koma fólki sem er í hættu til bjargar sem og dreifa hjálpargögnum á borð við drykkjavatn, mat, hlýjum fatnaði og öðru.

Rauði krossinn hefur opnað fyrir söfnunarnúmer sem eiga að renna beint til aðgerðanna í Miðjarðarhafi. Þau eru:

904 1500 fyrir 1500 króna framlag.

904 2500 fyrir 2500 króna framlag.

904 5500 fyrir 5500 króna framlag en einnig er hægt að leggja inn á reikning: 0342-26-12, kt. 530269-1649.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×