Skoðun
Helgi Ingólfsson rithöfundur,

Illuga þögn stjórnar Rithöfundasambandsins; ítrekun spurninga

Helgi Ingólfsson skrifar

Þann 21. janúar sl. fékk ég birt hér í Fréttablaðinu opið fyrirspurnarbréf til stjórnar Rithöfundasambands Íslands. Þar sem stjórnin hefur ekki virt mig svars, vil ég árétta fyrri spurningar og skerpa á með því að bæta við fáeinum áleitnari, ef það kynni að verða til að knýja á um svör:

1. Hvaða skýringar eru á því að Björn Vilhjálmsson, nefndarmaður RSÍ í úthlutunarnefnd í Launasjóði rithöfunda, sat ekki í þrjú ár eins og verklagsreglur gera ráð fyrir, heldur einungis eitt?

2. Hvaða rök lágu að baki því að Birni var skipt út óforvarendis?

3. Hvernig fór það ferli fram að Birni var skipt út? Hver átti hugmyndina að því og hvers vegna? Stóð stjórn RSÍ að útskiptingunni saman? Einhuga?

4. Hvernig var nýr aðili fundinn? Hvaða aðferðafræði lá til grundvallar? Hver talaði við hann? Allir stjórnarmenn? Hvernig var þeim fundi háttað þar sem ákveðið var að skipta um mann, sem og þeim fundi þar sem valinn var nýr? Var fundurinn/-irnir formlegur? Var ritari að fundinum/-unum? Var skráð fundargerð?

5. Var stjórn RSÍ beitt utanaðkomandi þrýstingi við að skipta Birni út eða gerði hún það alfarið að eigin frumkvæði?

6. Hefur upplýsingagjöf af hálfu stjórnar vegna útskiptingarinnar verið jöfn og lýðræðisleg til allra almennra félagsmanna innan sambandsins? Má ætla að sumir almennir félagsmenn innan RSÍ hafi meiri vitneskju um ferlið og málið allt heldur en aðrir?

7. Má búast við að þagnir verði viðbrögð stjórnar RSÍ í framtíðinni, þegar forðast þarf áleitnar spurningar?

8. Og síðast en ekki síst: Hvers vegna hefur stjórn RSÍ ekki svarað spurningum um þessi efni? Hvers eða hverra hagsmunum þjónar þögnin? Hvers eða hverra hagsmunum þjónaði útskiptingin?

Með afdráttarlausri ósk um skýr efnisleg svör.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.