Körfubolti

Lewis með 35 stig í fyrsta leiknum eftir fertugsafmælið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lewis fer hér framhjá Hjálmari Stefánssyni, leikmanni Hauka, sem er 20 árum yngri en hann.
Lewis fer hér framhjá Hjálmari Stefánssyni, leikmanni Hauka, sem er 20 árum yngri en hann. vísir/anton

Allt fertugum fært segir einhvers staðar og Darrel Keith Lewis sýndi það svo sannarlega í gær þegar Tindastóll vann öruggan sigur á Snæfelli, 114-85, í Domino's deild karla í körfubolta.

Lewis varð fertugur á laugardaginn og leikurinn í Síkinu í gær var því hans fyrsti eftir stórafmælið. Og Lewis hélt upp á áfangann með því að eiga frábæran leik.

Lewis gerði sér lítið fyrir og skoraði 35 stig, sem er það næstmesta sem hann hefur gert á tímabilinu. Eini leikurinn þar sem hann skoraði meira var gegn ÍR í 1. umferð deildarinnar.

Lewis hitti úr 15 af 22 skotum sínum utan af velli í leiknum í gær, sem gera 68% skotnýtingu. Hann var hins vegar í vandræðum á vítalínunni og setti aðeins eitt af fimm vítum sínum niður.

Lewis er með 21,2 stig að meðaltali í leik í vetur. vísir/ernir

Lewis tók einnig níu fráköst og gaf sex stoðsendingar og var alls með 39 framlagsstig, flest allra á vellinum.

Myron Dempsey stóð Lewis ekki langt að baki en hann gerði 34 stig og hitti úr 84% skota sinna utan af velli. Sigur Stólanna var aldrei í hættu en staðan í hálfleik var 54-37, heimamönnum í vil. Þetta var þriðji sigur Tindastóls í röð.

Lewis kom fyrst hingað til lands árið 2002 þegar hann gekk í raðir Grindavíkur. Hann spilaði þrjú tímabil í gula búningnum áður en hann fór til Ítalíu og svo til Grikklands.

Lewis sneri aftur til Íslands 2012 og samdi við Keflavík sem hann lék með í tvö ár áður en hann fór til Tindastóls fyrir síðasta tímabil.

Lewis fékk íslenskan ríkisborgararétt í desember 2004.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.