Viðskipti innlent

Hótað málsókn fyrir gagnrýni á Ryanair

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sérfræðingar sem hafa gagnrýnt starfsaðstæður hjá írska flugfélaginu Ryanair fengu á dögunum bréf frá flugfélaginu. Í bréfinu er sérfræðingunum hótað málsókn vegna gagnrýni þeirra.

Sænska ríkisútvarpið greindi frá því að sérfræðingarnir hefðu gefið skýrslu fyrir Evrópuþinginu um öryggismál hjá Ryanair. Þeir sögðu að ráðningarskilmálar hjá flugfélaginu gætu stefnt öryggi starfsmanna í hættu vegna þess að flugmenn sem ekki eru fastráðnir eru líklegir til þess að taka meiri áhættu. Þeir eru til dæmis líklegri til þess að vinna þótt þeir séu veikir eða þreyttir.

Eftir að hafa tjáð sig fengu sérfræðingarnir, sem þó hafa ekki látið nafn sitt uppi, bréf frá Ryanair. Þar var þeim hótað því að ef þeir myndu nokkurn tímann endurtaka þessa gagnrýni þá myndi Ryanair stefna þeim fyrir ummæli þeirra.

Það var hollenski Evrópuþingmaðurinn Wim van de Camp sem sagði frá bréfinu með hótununum. Hann segir að það hafi verið sex útgáfur af bréfinu. Hann óttast að afleiðingin verði sú að það verði erfiðara að fá sérfræðinga til að tjá sig fyrir Evrópuþinginu ef fyrirtæki ráðast á sérfræðinga með þessum hætti. Það geri lýðræðislega stöðu Evrópuþingsins mun flóknari. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×