Innlent

Úr sófanum og yfir Ermarsund

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Þegar Sigrún prófaði sjósund í fyrsta skipti fyrir sjö árum var hún kyrrsetukona í yfirvigt. Í dag syndir hún yfir Ermarsund, tekur þátt í hlaupa- og hjólakeppnum, þríþraut og skreppur upp Esjuna.
Þegar Sigrún prófaði sjósund í fyrsta skipti fyrir sjö árum var hún kyrrsetukona í yfirvigt. Í dag syndir hún yfir Ermarsund, tekur þátt í hlaupa- og hjólakeppnum, þríþraut og skreppur upp Esjuna. vísir/vilhelm
Sigrún Þ. Geirsdóttir komst í fjölmiðla landsins í síðustu viku þegar hún synti, fyrst íslenskra kvenna, yfir Ermarsund. Sundið tók 22 klukkustundir og 34 mínútur. Þvílíkt hreystimenni, sögðu landsmenn með aðdáun og hafa líklega flestir ímyndað sér að þessi kona hafi fæðst með íþróttaskóna reimaða á sig og æft sund frá blautu barnsbeini. En þannig er það aldeilis ekki. Þar til fyrir sjö árum lét Sigrún helst ekki sjá sig í sundlaugum landsins.

„Ég var kyrrsetumanneskja og hreyfði mig lítið. Var alltof þung og líkamlega ástandið ekki sérlega gott, var með astma og exem. Svo dró systir mín mig með sér í sjósund árið 2008 og ég heillaðist upp úr skónum. Mér fannst tengingin við náttúruna svo góð og þetta bætti bæði líkamlega og andlega líðan. Nú er ég mörgum kílóum léttari og nánast laus við astmann. Andlega er ég á nýjum stað, er orkumeiri og ánægðari með sjálfa mig.“

Ákvað að fara í skriðsundkennslu

Eftir tveggja ára sjósundiðkun fann Sigrún mikinn mun á sér. Áhuginn á hreyfingu óx með meiri getu. Litlir sigrar eins og að geta gengið á Esjuna og Hvannadalshnúk eða fara út að skokka gáfu henni byr undir báða vængi. Árið 2011 synti Sigrún Viðeyjarsund en það var ekki fyrr en sjósundhópurinn hennar fékk þá hugmynd að synda boðsund yfir Ermarsund að hún ákvað að skella sér í sundkennslu.

„Það eru bara þrjú ár síðan ég lærði skriðsund. Þar til þá hafði ég alltaf synt bringusund. Ég æfði í eitt ár og svo fór ég með sjósundkonunum mínum, sem kalla sig Sækýrnar, yfir Ermarsundið í boðsundi. Við fengum þessa brjálæðislegu hugmynd eitt kvöldið heima hjá mér en mér fannst gáfulegra að læra sund áður en ég færi út í það verkefni.“

Þarna sést glitta í Sigrúnu í stóra hafinu þegar hún er búin að synda í fjóra tíma af 22 tímum og 34 mínútum.
Hugsaði um hundinn sinn

Sigrún synti aftur boðsund yfir Ermarsund árið 2014 og eftir það fann hún að hana langaði að prófa að synda ein. Hún byrjaði að æfa á fullu fyrir það og undirbúa sundið. Það þarf að panta bát, fá leyfi í Dover, fara í læknisskoðun og taka sex tíma reynslusund hér heima svo eitthvað sé nefnt. 

„Mikilvægasti undirbúningurinn er samt að kunna að stilla hausinn rétt. Ég hafði heyrt margar reynslusögur af því hvernig hausinn klikkar í sundinu. Þá fer fólk að hugsa einhverja vitleysu, fá ranghugmyndir, missa alla trú á sér og finna ástæðu til að hætta og gefast upp. Ég var því búin að ákveða hvað ég ætlaði að hugsa ef ég fyndi ruglhugsanir ryðjast inn, nokkurs konar möntru.“ 

Sigrún fer að hlæja þegar blaðamaður spyr hvort hún vilji segja frá möntrunni sinni. 

„Ég hugsaði um hundinn minn, hann Fróða. Ég sá hann alltaf fyrir mér koma hlaupandi á móti mér þegar ég kem heim úr vinnunni. Ég vil samt taka það fram að ég á yndislegan eiginmann og þrjú börn.“ 

Kók kom henni yfir 

Þrátt fyrir góðan undirbúning var sundið afar erfitt. Hún hefur aldrei orðið sjóveik á ævi sinni en varð það eftir þriggja og hálfs tíma sund, eftir fyrstu fjórar matargjafirnar. Áhöfnin á skipinu sem fylgdi henni á sundinu kastaði til hennar brúsa í bandi sem innihélt kolvetnissprengju. En Sigrún hélt engu niðri. 

„Það fór allt í hnút í maganum. Næstu sex til sjö klukkutíma kastaði ég upp í hvert skipti eftir matargjöf. Eftir tíu tíma var ég orðin köld og orkulaus. Þá var matseðlinum breytt og mér var gefið kók, súkkulaði og Jelly Babies. Það borðaði ég næstu tíu tímana.“ 

Sigrún hugsaði um að synda eitt sundtak í einu en alls synti Sigrún um 65.000 sundtök.
Ástvinir fullir af lygi 

Jóhannes Jónsson, maðurinn hennar Sigrúnar, var á bátnum sem fylgdi henni eftir ásamt tengdadóttur, vinkonu og kærasta hennar. 

„Það er ekki æskilegt að hafa makann með því þeir geta víst skemmt sundið. Það er erfitt að horfa upp á manneskjuna sem þú elskar mest gubba, gráta, vera sára og svekkta. Því það var oft ansi erfitt hjá mér. En það var rosalega gott að hafa hann með og hann stóð sig ótrúlega vel. Það komu alveg upp augnablik þar sem ég vildi hætta en þá hvatti þetta eðalfólk mig áfram. Þau ættu í raun að fá fálkaorðuna í að ljúga, því þau voru alltaf að segja mér að það væru bara tíu mínútur eftir. 

Jafnvel þótt ég væri bara búin með sjö tíma sund,“ segir Sigrún hlæjandi. 

Fáum tekst að klára sundið

Sigrún kom heim á fimmtudaginn síðastliðinn og er enn að jafna sig eftir þrekvirkið. Fyrstu þrjá sólarhringana gat hún ekki klætt sig sjálf því hendurnar á henni voru sem lamaðar. En hún segir að þetta sé allt að lagast og „svo er húðin að jafna sig eftir alla þessa kókdrykkju,“ bætir hún við. 

Sigrún er ansi tekin eftir sundið og gat til að mynda ekki hreyft á sér hendurnar fyrstu þrjá dagana.vísir/vilhelm
Blaðamaður spyr af mikilli hvatvísi eftir þessar lýsingar af hverju hún fari út í svona vitleysu og uppsker mikinn hlátur. „Ég geri þetta ánægjunnar vegna. Jú, jú, ætli ég sé ekki með ágætis keppnisskap en ég er engin íþróttakona. Þetta snýst um að hafa gaman, njóta og klára. Tímatakan skiptir engu máli. Það sama gildir um hlaup og tvíþrautakeppnir sem ég hef tekið þátt í – ég ætla ekki að vinna neinar medalíur. “ 

En Sigrún hefur uppskorið mun meira en medalíu. Hún hefur skráð sig á spjöld sögunnar. 

„Það er sérstök tilfinning, ég verð að viðurkenna það. Enda er ég virkilega stolt af þessu afreki mínu. Þetta var mjög erfitt og ekki nema einn af hverjum fimm sem reyna Ermarsundið ná að klára það. Mér þykir vænt um að vera fyrirmynd fyrir venjulegt fólk sem heldur að það þurfi að hafa svaka íþróttaferil til að setja sér svona markmið. Þetta snýst mun frekar um rétt hugarfar. En já, það er mikill heiður að fá að vera hvunndagshetja,“ segir Sigrún hógvær.

Leiðin sem synt er yfir Ermarsundið er 62,7 kílómetrar. Straumarnir eru svo miklir að ekki er hægt að fara beina leið yfir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×