Lífið

Emmsjé Gauti og Lögreglan: Neitaði lögreglu um að leita í vösum sínum

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Gauti er ósáttur við framgöngu lögreglunnar á b5 aðfaranótt sunnudags.
Gauti er ósáttur við framgöngu lögreglunnar á b5 aðfaranótt sunnudags. Vísir/Stefán

„Ég þekki minn rétt og þetta var bara fáránleg framkoma hjá lögreglunni,“ segir rapparinn Gauti Þeyr Másson, betur þekktur sem Emmsjé Gauti, um uppákomu inni á skemmtistaðnum b5, aðfaranótt laugardags. Gauti var þar staddur ásamt vinum sínum þegar tveir lögreglumenn tóku hann afsíðis og vildu leita á honum.

„Við byrjuðum kvöldið með því að fara á uppistand með Hugleiki Dagssyni á Húrra. Við fórum þaðan á Fredda og tókum nokkra tölvuleiki. Síðan ákváðum við að kíkja á b5 og vorum afar rólegir. Ég var búinn að drekka þrjá bjóra. Enginn í hópnum var ölvaður og enginn með læti,“ útskýrir Gauti. Þegar hópurinn kom inn á b5 komu lögreglumenn að rapparanum og vildu ræða við hann. „Við stöndum þarna inni á staðnum og allt í einu birtist maður fyrir framan mig sem kynnir sig ekki. Grípur í höndina á mér og biður mig að koma með sér. Ég neitaði því. Þá birtist lögreglukona sem var frekar æst og sýnir mér lögreglumerkið sitt og sagði mér að koma afsíðis. Ég sagðist ekki hafa neina ástæðu til þess og bað um að fá að sjá skjöldinn hennar aftur.“

Þekkir rétt sinn
Gauti segir að lögreglumennirnir hafi sagt honum að kæmi hann ekki með þeim afsíðis myndi það jafnvel þýða að hann yrði handtekinn á staðnum. „Ég ákvað því að fara með þeim þarna bakatil og þar mætti ég þremur öðrum lögreglumönnum. Ég var beðinn að tæma vasana mína. Þó að ég hafi ekki haft neitt að fela neitaði ég að gera það. Ég sagði þeim að ég þekkti rétt minn og mér var bara gróflega misboðið. Það var engin ástæða til þess að sigta mig út og taka mig afsíðis. Lögreglukonan spurði mig hvort ég ætlaði virkilega að spila þennan leik og sagði að ef ég neitaði að tæma vasana myndi það þýða að ég yrði handjárnaður, að þau þyrftu að fara með mig út um aðaldyrnar og þannig fara með mig í járnum yfir dansgólfið í allra augsýn. Ég ákvað þarna að gefa mig einfaldlega ekki. Ég sagði þeim að ef þau vildu gera það yrðu það þá að vera þannig.“

Ekkert samræmi í útskýringum
Gauti segir að ekkert samræmi hafi verið í rökstuðningi lögreglumannanna, af hverju hann hafi verið tekinn fyrir þarna inni á skemmtistaðnum. „Fyrst var mér tjáð að þetta hafi verið „random“, en síðar sögðust þau hafa verið að fylgjast með mér og hefðu rökstuddan grun. Líklega bara til þess að hræða mig, enda vorum við nýkomnir inn á staðinn.“
Gauti bætir við að þegar hann endurtók við lögreglumennina að þeir þyrftu bara að fara með hann inn á lögreglustöð hafi þeir gefið sig. „Ég sagði þeim að mér þætti þetta brot á friðhelgi míns einkalífs. Að þeir ætluðu að leita á mér þarna algjörlega að ástæðulausu. Þeir vissu vel að ekkert benti til þess að ég væri á eiturlyfjum. Ég er ekki á sakaskrá og ég var tekinn afsíðis á einhverjum fáránlegum forsendum, líklega vegna þess að þeir könnuðust eitthvað við andlitið á mér. Ég sagði þeim að ef þeir ætluðu sér að handtaka mig yrðu þeir þá bara að gera það, en þá þyrftu þeir líka að eiga við eftirmálin, því það var nákvæmlega engin ástæða til að handtaka mig.“ Gauti segir að lögreglumennirnir hafi þarna sannfærst um að hann væri ekki með eiturlyf á sér. „Þeir sögðu að þetta væri allt í góðu og að ég mætti fara. Bara sisvona. Líklega hafa þeir séð að þessi hræðslutaktík myndi ekki virka og þeir hafa örugglega gert sér grein fyrir því að þeir hafi ekkert getað gert innan ramma laganna.“

Ekki í fyrsta skiptið
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Gauti lendir í lögreglumönnum sem vilja vita hvað er í vösum hans. „Á Sónar í fyrra settist ég niður í Hörpu, ásamt móður minni og systur. Við höfðum setið þarna í mjög skamma stund þegar lögreglumaður kom að mér og bað mig að koma með sér. Mér fannst þetta svo furðulegt allt að ég bara leyfði honum að fara ofan í vasa mína og að sjálfsögðu fannst ekkert. Manni brá bara eiginlega að þetta færi svona fram.“

Hann er mjög mótfallinn þessum aðferðum lögreglunnar, eins og beitt hefur verið á hann í tvígang núna. „Erum við ekki komin lengra en þetta? Við erum með pissfullt fólk úti um allt sem er að slást og jafnvel ælandi í tíma og ótíma. Ætlum við í alvörunni að reyna að nappa fólk á einhverjum einkaneysluskömmtum þegar það er úti að skemmta sér? Lögreglan segist vera undirmönnuð. En um helgina voru þarna fimm lögreglumenn að nóttu til, með mér baksviðs að reyna að hræða mig. Þetta snýst nefnilega ekki um eitthvert hatur á lögreglunni. Ég myndi frekar vilja að lögreglumenn væru sýnilegir á djamminu, þannig að fólk gæti leitað til þeirra og þeir fylgst vel með. Í staðinn fyrir að þeir klæði sig í „nineties“ unglingaföt, í einhverju dulargervi að reyna að grípa fólk úr leyni. Maður hefur séð og heyrt Pírata ræða þessi mál mikið og mér finnst mjög mikilvægt að við ræðum borgaraleg réttindi hér á landi, því svona aðferðir við að leita á fólki eiga ekki að sjást.“
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.