Lífið

Það er ekki stærsta syndin að vera fyndinn

Adda Soffia Ingvarsdóttir skrifar
 Pétur fagnar sextugsafmæli sínu í dag.
Pétur fagnar sextugsafmæli sínu í dag. Vísir/GVA

„Ég fór bara niður á Hagstofu og valdi mér þessa góðu kennitölu 05.05.55,“ segir Pétur Þorsteinsson, prestur hjá Óháða söfnuðinum.

Í dag fagnar hann sextugsafmæli og þann 1. maí voru liðin tuttugu ár frá því að hann tók við sem prestur hjá söfnuðinum. „Ég tók við á verkalýðsdaginn árið 1995. Ætli ég verði ekki hér þangað til að ég fer á Grund. Maður er nú samt kominn með annan og stundum báða fæturna þangað,“ bætir hann við, en Pétur sinnir einnig starfi æskulýðsfulltrúa á Grund.

Pétur hefur gleði og húmor að leiðarljósi, bæði í lífi og starfi. Hann er þekktur fyrir Pétrísk-íslensku orðabækurnar sínar og nú er sú 34. á leiðinni.

„Ég er stundum spurður að því hvenær ég ætli að verða fullorðinn og hætta þessum fíflagangi. Ég svara bara á móti að það er ekki stærsta syndin að vera fyndinn.“

Afmælisdeginum ætlar Pétur að eyða með fjölskyldu og vinum. „Ég fæ þessa nánustu í kaffi og kökur á prestssetrinu. Um helgina fóru systkini mín með mér í óvissuferð austur fyrir fjall, þar sem við ferðuðumst um á stubbastrætó og heimsóttum hina og þessa.“

Pétur segist ekki hræðast ellina, heldur lifi hann í núinu og njóti þess. „Ég ætla ekki að vera bogfrosið gamalmenni sem er fast í fortíðinni, heldur horfa á það sem er hér og nú. Til dæmis kynslóðin sem er að alast upp núna er mun hressari og opnari en áður var. Nú þegar fólk hittist þá faðmast menn, annað en hjá minni kynslóð. Það er dýrmætt að geta gert það.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.