Skoðun

Þúsund og fimm íbúar

Ásthildur Sturludóttir skrifar
Við síðustu mánaðamót voru íbúar Vesturbyggðar 1005. Fyrir ári síðan voru íbúar Vesturbyggðar 949. Þetta er mikil fjölgun fyrir lítið samfélag. Þúsundasti íbúinn fluttist til Vesturbyggðar með fjölskyldu sinni í byrjun desember og er það 10 ára gömul stúlka, Adelia Felizardo Valsdóttir sem býr á Patreksfirði og stundar nám í Patreksskóla. Samfélagið gleðst einlæglega yfir að vera búið að ná þessum íbúafjölda sem kann í sumra augum ekki vera mikill en í sveitarfélagi sem upplifði áralanga hnignun og fólksflótta er þetta stór áfangi.

Það er ekki að ástæðulausu að íbúum á sunnanverðum Vestfjörðum hefur fjölgað svo mjög hin síðustu ár. Fiskeldi, ferðaþjónustu og kalkþörunganámi hefur vaxið fiskur um hrygg, samhliða útgerðinni sem er enn stærsti atvinnuvegur sunnanverðra Vestfjarða. Mikil fjölgun íbúa síðustu ár verður þó beint rakin til uppbyggingar í fiskeldi en foreldrar þúsundasta íbúans í Vesturbyggð starfa einmitt hjá fiskeldisfyrirtækinu Fjarðalax. Allnokkrar fjölskyldur hafa flust til Vesturbyggðar vegna uppbyggingarinnar í fiskeldinu og er gleðilegt að sjá þá þróun sem orðið hefur síðustu ár. Fyrirtækin hafa lagt áherslu á að fá starfsfólk sitt til þess að flytjast vestur með fjölskyldur sínar.

Sveitarfélagið bindur að sjálfsögðu vonir við að þessi þróun haldi áfram og að íbúum fjölgi og nái fyrri íbúatölu en árið 1994 bjuggu hátt í 1500 manns í Vesturbyggð. Hér eru glæsileg fyrirtæki, ný og gömul, sem þekkja skyldur sínar gagnvart samfélaginu og tækifærin til vaxtar eru næg.

Sveitarfélagið leggur sig sömuleiðis fram við að styðja við atvinnulífið á svæðinu. Lögð er áhersla á að nýta þjónustu heimafólks og versla við fyrirtæki í heimabyggð. Sveitarfélagið leggur sig einnig fram við að styðja við ný fyrirtæki sem vilja byggja sig upp á svæðinu. Hlutverk sveitarfélaga er þannig að skapa hagfellt umhverfi fyrir fyrirtæki til að starfa í og standa vörð um hagsmuni íbúa og fyrirtækjanna. Byggja upp hafnaraðstöðu, bjóða hagstæða gjaldskrá, hafa lóðir fyrir atvinnuhúsnæði og íbúðir í boði.

Það er von okkar sveitarstjórnarmanna að fjölgun íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum haldi áfram og fiskeldið leikur lykilhlutverk í þeirri fjölgun. Við viljum að til okkar flytjist íbúar sem sjá framtíð sína hér og eru tilbúnir að taka þátt í því öfluga mannlífi og atvinnulífi sem hér er.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×