Körfubolti

Bjarni: Liðið getur betur og því varð ég að líta í eigin barm og stíga til hliðar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Bjarni Magnússon er hættur hjá ÍR.
Bjarni Magnússon er hættur hjá ÍR. vísir/vilhelm

Bjarni Magnússon, þjálfari ÍR í Dominos-deild karla í körfubolta sagði upp störfum í gær eftir dapra byrjun liðsins. ÍR er með fjögur stig eftir tvo sigra í sex leikjum.

Makedóníumaðurinn Borce Ilievski, aðstoðarþjálfari Bjarna, var ráðinn í hans stað og verður hans fyrsta verkefni að stýra liðinu í Ljónagryfjunni gegn Njarðvík í kvöld.

„Þetta var algjörlega mín ákvörðun. Það var enginn þrýstingur frá neinum og engir krísufundir með stjórn eða formanni. Þetta er bara ákvörðun sem ég tók eftir að hugsa þetta um helgina,“ sagði Bjarni í viðtali í Akraborginni í gær.

ÍR hefur ekki bara verið að tapa leikjum heldur tapa sumum þeirra ansi stórt. Liðið er nýlega búið að fá væna skelli gegn Grindavík og nú síðast Haukum í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

ÍR-ingar fengu vænan skell gegn Grindavík. vísir/stefán

Mjög erfið ákvörðun
„Við höfum tapað nokkrum leikjum mjög illa þar sem mér fannst holningin á liðinu mjög slæm. Þá verð ég sem þjálfari aðeins að líta í eigin barm, sjá hvað er í gangi og í framhaldi af því var það ákvörðun mín að stíga til hliðar,“ sagði Bjarni.

„Mér fannst þetta rétti tímapunkturinn. Ég fann bara á mér að þetta væri réttur tímapunktur fyrir annan mann að stíga inn því eitthvað var ekki að klikka.“

„Þó liðið sé með góða leikmenn var eitthvað ekki að tikka og ég fann ekki neinn spotta til að kippa í sem gat lagað þetta,“ sagði Bjarni.

Bjarni tók við starfinu í fyrra og hélt ÍR-ingum uppi eftir fallbaráttu á síðustu leiktíð. Hann segir liðið eiga að gera betri hluti en raun ber vitni.

„Þetta var mjög erfið ákvörðun. Þetta er góður hópur og í Breiðholtinu er vel haldið utan um liðið. Mér fannst við eiga gera betur en við vorum að gera því hópurinn er góður og þess vegna er ég að hætta,“ sagði Bjarni Magnússon.

Allt viðtalið má heyra í spilaranum hér að neðan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.