Innlent

Nemendur vilja láta halda sér við efnið

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Anna Kristín Sigurðardóttir, menntunarfræðingur.
Anna Kristín Sigurðardóttir, menntunarfræðingur. vísir/ernir

Framhaldsskólanemendur vilja fjölbreytt náms­umhverfi, meiri sveigjanleika og brjóta upp gömlu skólastofuna sem þeir hafa setið í frá sex ára aldri.

Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar Önnu Kristínar Sigurðardóttur sem hún gerði um námsumhverfi framhaldsskólanema. 56 nemendur voru spurðir hvað þeim fyndist ákjósanlegt umhverfi til náms og hvaða möguleika þeir hefðu til áhrifa á náms­aðstæður sínar.

Helstu niðurstöður eru að framhaldsskólanemendur vilja hafa umhverfi sitt á allt annan veg en það er í allflestum framhaldsskólum í dag.

„Í fyrsta lagi eru nemendur ekki spurðir álits en þeir vilja gjarnan hafa meira til málanna að leggja. Í öðru lagi kjósa þeir námsumhverfi þar sem þeir geta setið í hópum án þess að hópavinnu sé þröngvað upp á þá. Þeir kjósa síður námsumhverfi sem er í föstum skorðum eða innrammað, eins og í hefðbundnum skólastofum,“ segir Anna Kristín.

Aðspurð hvort einbeiting nemenda verði ekki minni ef þeir fá slíkt frelsi segir Anna Kristín nemendur þvert á móti vilja meiri ramma með breyttu umhverfi.

„Í stórum stofum og fyrirlestrasölum geta nemendur lokað sig af úti í horni, farið á netið eða sofnað. Nemendurnir vilja einmitt meiri aga og ramma sem heldur þeim við efnið, þeim fannst breytt fyrirkomulag bjóða upp á það. Þeir voru alls ekki að biðja um umhverfi þar sem þeir geta slegið slöku við.“

Nýir framhaldsskólar hafa verið byggðir eftir hugmyndafræði um opna skóla. Anna Kristín bendir á að eldri skólar geti brotið upp umhverfið með nýjum kennsluháttum, líkt og margir grunnskólar hafa gert. „En hefðin er afar sterk í þessum málum,“ segir hún.



Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.