Fótbolti

Feðgar númer tvö sem verða báðir meistarar utan Íslands

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eyjólfur Sverrisson og Hólmar Örn Eyjólfsson.
Eyjólfur Sverrisson og Hólmar Örn Eyjólfsson. Vísir/Getty

Hólmar Örn Eyjólfsson og félagar í liði Rosenborg tryggðu sér í gær norska meistaratitilinn í fótbolta en með Hólmar leikur landi hans Matthías Vilhjálmsson.

Rosenborg gerði þá 3-3 jafntefli á móti Strömsgodset sem er í öðru sæti deildarinnar. Eftir þessi úrslit munar tíu stigum á liðunum en aðeins sex stig eru eftir í pottinum.

Þetta er fyrsti meistaratitill Rosenborg BK í fimm ár (síðast 2010) og fyrsti meistaratitill hins 25 ára gamla Hólmars Arnar á atvinnumannaferli hans.

Hólmar Örn lék eftir afrek pabba síns, Eyjólfs Sverrissonar, að verða meistari í öðru landi.

Eyjólfur Sverrisson var bæði þýskur og tyrkneskur meistari á sínum ferli en í bæði skiptin var hann undir stjórn Christoph Daum.

Eyjólfur var með 3 mörk í 31 leik með Stuttgart þegar hann varð þýskur meistari með félaginu 1992 og þremur árum seinna var hann með með 9 mörk í 33 leikjum þegar hann hjálpaði Besiktas að vinna tyrkneska meistaratitilinn.

Hólmar Örn Eyjólfsson hefur skorað eitt mark og gefið fjórar stoðsendingar í 27 leikjum með Rosenborg en hann hefur spilað alla leiki nema einn.

Aðeins feðgarnir Arnór Guðjohnsen og Eiður Smári Guðjohnsen hafa komist í þennan klúbb það er að verða báðir meistarar í efstu deild í öðru landi.

Arnór Guðjohnsen var þrisvar belgískur meistari með Anderlecht frá 1985 til 1987 en Eiður Smári vann enska titilinn tvisvar með Chelsea (2005 og 2006) og spænska titilinn einu sinni með Barcelona (2009).

Hólmar Örn Eyjólfsson kom til Rosenborg á miðju síðasta tímabili og vann sér sæti í byrjunarliðinu. Hann hefur oftast spilað sem miðvörður á þessu tímabili en var í hlutverki hægri bakvarðar í jafntefli á móti Strömsgodset í gær.

Eyjólfur spilaði margar stöður með Stuttgart á titilárinu, mest á miðjunni en einnig í vörninni. Hann spilaði mest á miðjunni hjá Besiktas.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.