Innlent

Braut lög á myndbandi: Bíl ráðherra ekið á gangstéttinni á móti rauðu ljósi

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar

Eftir ríkisstjórnarfund á föstudag ók bílstjóri Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra ráðherrabílnum eftir gangstétt Lækjargötunnar og beygði upp Hverfisgötuna án þess að virða logandi rautt ljós. Tökumaður Stöðvar 2 var á staðnum og náði myndbandi af atvikinu. Myndbandið má sjá hér fyrir ofan.

Í því sést hvar Kristján Þór hleypur í rigningunni að bílnum, sest í farþegasæti bifreiðarinnar og því næst beygir bíllinn til hægri upp á gangstéttina án sjáanlegrar ástæðu. Í myndbandinu má sjá að sex bílar eru kyrrstæðir og bíða farþega. Auk þeirra er hvítur fólksbíll á rauðu ljósi við gatnamótin. Enginn þessara bíla hindrar för bíls heilbrigðisráðherra að nokkru leyti.

Bílstjóri Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra virti umferðarreglur að vettugi eftir ríkisstjórnarfund á föstudag. vísir/pjetur

Þrátt fyrir að svo hefði verið er ólöglegt að aka upp á gangstétt og við því liggur fimm þúsund króna sekt; stofni bílstjóri engum í hættu. Þetta segir lögregluþjónn hjá Umferðardeild lögreglu. „Valdi menn hættu liggur við brotinu fimmtán þúsund króna sekt. Síðan er matsatriði hvað sé hætta; voru vegfarendur, ók hann glannalega og þess háttar.“

Lögregluþjónninn segist ekki viss um hvort bíllinn teljist brotlegur gagnvart rauða ljósinu til viðbótar við fyrra brot þar sem hann ekur hægra megin við umferðarljósin. „Það er spurning hvort hægt sé að túlka þetta sem akstur á móti rauðu ljósi. Það er atriði sem lögfræðingarnir okkar myndu skoða.“ Sektin við því broti nemur fimmtán þúsund krónum. Auk fjársektar fá ökumenn punkt í ökuferilskrá.

„Nei,“ svarar lögregluþjónninn spurður hvort um ráðherrabíla eða -bílstjóra gildi aðrar umferðarreglur en um aðra í umferðinni. „Ráðherrabílum ber að fara eftir umferðarlögum sem eru í gildi. En í opinberum fylgdum, ef ráðherrar eru í lögreglufylgd, gilda aðrar reglur. Þá eru þeir undir stjórn lögreglu.“

Ekki hefur náðst í aðstoðarmann heilbrigðisráðherra um helgina.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.