Innlent

Bjó til skilti sem gefur til kynna að hér sé bannað að kúka

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Skiltið og ferðalangur á þingvöllum sem hafði að vísu ekki verið að létta á sér.
Skiltið og ferðalangur á þingvöllum sem hafði að vísu ekki verið að létta á sér. vísir/pjetur
„Við höfum selt miklu fleiri svona skilti en ég gerði ráð fyrir,“ segir Hrafn Heiðdal eigandi Ferró skiltagerðar. Fyrirtækið hefur útbúið skilti sem benda ferðalöngum, innlendum jafnt sem erlendum, að bannað sé að létta á sér í umhverfi skiltisins.

Vallgangur ferðamanna er víðavandamál á ferðamannastöðum landsins. Í gær mátti sjá frétt þess efnis að ferðamenn léttu á sér víða á Þingvöllum. Reglulega þurfa þjóðgarðverðir að ganga í hægðum sínum til að tína upp hægðir annarra. 

Í kjölfar fréttaflutnings birti starfsfólk þjóðgarðsins yfirlýsingu á Þingvellir.is þar sem þeir héldu því fram að margir leiðsögumenn vísuðu túristum frekar á runna, hraun og holur heldur en þau almenningssalerni sem í boði eru. 

„Við höfðum heyrt þessa umræðu þannig við bjuggum til eitt skilti og settum á Facebook. Viðbrögðin voru mjög góð og það hafa margir pantað svona hjá okkur,“ segir Hrafn. „Það eru líka fjölmargir sem panta skilti sem gefa til kynna að land sé einkaland því ferðamenn eru að koma á öllum tímum sólarhrings og angra þá.“

Skiltið gæti verið ákveðin lausn á þessu leiða vandamáli. Gangi það ekki upp er Hrafn líka með aðra lausn. „Þegar hundaeigendur rölta út með hunda sína eru þeir með poka til að hreinsa skítinn upp. Væri ekki hægt að hafa poka í flugvélunum þannig þeir sem vilja gera þetta, þeir geti gripið þá með sér inn í landið?“ spyr hann kíminn og hlær.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×