Körfubolti

Finnur Atli genginn í raðir Hauka

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Finnur Atli Magnússon fer frá Íslandsmeisturunum í Hafnarfjörðinn.
Finnur Atli Magnússon fer frá Íslandsmeisturunum í Hafnarfjörðinn. vísir/valli

Finnur Atli Magnússon, leikmaður Íslandsmeistara KR í Dominos-deild karla í körfubolta, er genginn í raðir Hauka, en hann skrifaði undir eins árs samning við Hafnafjarðarfélagið í dag.

Þetta er góður liðsstyrkur fyrir Hauka sem komust í undanúrslit Dominos-deildarinnar í ár en töpuðu þar gegn verðandi silfurverðlaunahöfum Tindastóls.

Finnur Atli spilaði 31 leik fyrir KR á síðustu leiktíð og skoraði 7,5 stig og tók 4,7 fráköst að meðaltali á þeim 18 mínútum sem hann spilaði í leik.

Hann hóf meistaraflokksferilinn með KR árið 2010 en spilaði eitt ár með Snæfelli veturinn 2013/2014. Finnur Atli varð Íslandsmeistari með KR árið 2011 og aftur á síðustu leiktíð.

Finnur Atli er tengdur inn í mikla Haukafjölskyldu, en unnusta hans er körfuknattleikskonan Helena Sverrisdóttir. Hún sneri aftur heim úr atvinnumennsku í sumar og spilar og þjálfar kvennalið Hauka á næstu leiktíð.

KR-ingar eru nú þegar búnir að fylla í skarðið fyrir Finn Atla, en Íslandsmeistararnir hafa tryggt sér þjónustu Blikans Snorra Hrafnkelssonar sem spilaði með Njarðvík undanfarin tvö ár.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.