Enski boltinn

Axel hefur spilað þrjátíu landsleiki í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson, Axel Kárason og Ragnar Nathanaelsson.
Hlynur Bæringsson, Axel Kárason og Ragnar Nathanaelsson. mynd/kkí

Axel Kárason er í íslenska landsliðinu á Smáþjóðaleikunum sem fram fara á Íslandi þessa dagana, en strákarnir okkar hefja leik gegn Andorra klukkan 19.30 í kvöld.

Enginn annar leikmaður í íslenska liðinu á Smáþjóðaleikunum í ár hefur spilað jafnmarga leiki í röð án þess að missa úr landsleik.

Axel Kárason hefur nú spilað þrjátíu landsleiki í röð eða alla leikið íslenska liðsins síðan að Peter Öqvist tók við íslenska liðinu sumarið 2012.

Axel hafði þá ekki verið valinn í landsliðið í sex ár eða síðan að hann var með á Norðurlandamótinu í Tampere í Finnlandi í ágúst 2006. Þá valdi Sigurður Ingimundarson hann í landsliðið og Axel spilaði sinn fyrsta landsleik á móti heimamönnum í Finnlandi 2. ágúst 2006.

Axel Kárason mun nú ekki bara spila fyrir Craig Pedersen með íslenska landsliðinu því Axel hefur gengið til liðs við Svendborg Rabbits, liðið sem Pedersen þjálfar í dönsku deildinni.

Axel Kárason hefur reyndar aðeins spilaði 8 af 34 landsleikjum sínum fyrir íslenska þjálfara því fyrir utan þessa fjóra fyrstu undir stjórn Sigurðar Ingimundarson þá hefur hann spilað landsleiki sína fyrir erlenda þjálfara nema fjóra leiki á Smáþjóðaleikunum í Lúxemborg þar sem að Pétur Már Sigurðsson og Arnar Guðjónsson stýrðu íslenska liðinu í forföllum Peter Öqvist.

Hlynur Bæringsson og Haukur Helgi Pálsson hafa aðeins misst af fjórum leikjum á þessum tíma en Haukur Helgi er ekki með á Smáþjóðaleikunum í ár vegna meiðsla.

Flestir leikir fyrir íslenska karlalandsliðið frá 2012:
Axel Kárason · 30
Hlynur Bæringsson · 26
Haukur Helgi Pálsson · 26
Logi Gunnarsson · 25
Pavel Ermolinskij · 24
Brynjar Þór Björnsson · 24
Ragnar Nathanaelsson · 19
Martin Hermannsson · 19
Jón Arnór Stefánsson · 19
Jakob Örn Sigurðarson · 19
Sigurður Gunnar Þorsteinsson · 17
Hörður Axel Vilhjálmsson · 15
Ægir Þór Steinarsson · 15

Landsleikir Axels Kárasonar fyrir einstaka þjálfara:
Peter Öqvist · 20
Craig Pedersen · 6
Sigurður Ingimundarson · 4
Pétur Már Sigurðsson · 4

Eins og fyrr segir er fyrsti leikurinn í kvöld en liðið spilar síðan við Lúxemborg á fimmtudeginum 4. júní (klukkan 19.30) og svo lokaleikinn sinn á móti Svartfjallalandi á laugardeginum 6. júní (klukkan 16.00). Frítt er inn á alla viðburði leikanna.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.