Körfubolti

KR ætlar að halda Craion fari hann ekki sömu leið og meistarakanar KR-inga

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Michael Craion er lykilmaður KR.
Michael Craion er lykilmaður KR. vísir/andri marinó
Íslandsmeistarar KR í Dominos-deild karla í körfubolta vilja halda Michael Craion, bandarískum miðherja liðsins, ef mögulegt er.

Craion kom til KR síðasta sumar eftir tveggja ára dvöl í Keflavík og var lykilmaður í KR-liðinu sem varði Íslandsmeistaratitil sinn á nýliðinni leiktíð.

„Hugmyndin er að halda honum, en vanalega hafa erlendir leikmenn KR sem vinna titilinn farið í stærri deildir. Þessir titlar hjálpa þeim mikið,“ segir Böðvar Guðjónsson, varaformaður körfuknattleiksdeildar KR, við Vísi.

Craion skoraði 24,6 stig að meðaltali í leik í vetur og tók 12,4 fráköst. En tölfræðin er ekki allt, segir Böðvar.

„Menn hafa verið að skora 30 stig í lélegum liðum en það er eins og liðin úti horfi mikið til árangurs. Allir þessir Bandaríkjamenn sem hafa unnið titilinn með okkur hafa komist í stærri deildir og fengið laun sem við getum ekki keppt við,“ segir hann.

„Demond Watt sem spilaði með okkur í fyrra komst í stærri deild, Marcus Walker sem var hérna 2011 fór til Úkraínu og þaðan til Ítalíu og Jason Dourisseau komst líka í talsvert betri laun.“

Verði Craion aftur á móti áfram á Íslandi er Böðvar handviss um að miðherjinn haldi áram í KR.

„Ég hef enga trú á öðru en hann vilji vera áfram í meistaraliðinu sem ætlar sér að verja titilinn aftur,“ segir Böðvar Guðjónsson


Tengdar fréttir

Finnur Freyr: Sætti mig strax við pressuna

Finnur Freyr Stefánsson er fyrsti þjálfari KR í 47 ár sem hlýtur tvo Íslandsmeistaratitla í röð. Hann segist hafa tekið vissa áhættu í undanúrslitunum gegn Njarðvík og kallar Stefan Bonneau martraðamanninn sinn.

Viljum vinna miklu fleiri titla

KR varð Íslandsmeistari karla í körfubolta annað árið í röð og í 14. sinn í sögu félagsins í gærkvöldi þegar liðið vann Tindastól, 88-81, í fjórða leik liðanna í lokaúrslitunum. KR-ingar stefna á að vinna fleiri titla á næstu árum og stefna á bikarmeistaratitilinn




Fleiri fréttir

Sjá meira


×