Innlent

Mikill vatnsleki í Egilshöll: „Við gripum bara allt tiltækt, bala, bjórfötur og tuskur“

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Mikið tjón varð þegar um þúsund fermetra þakdúkur Egilshallarinnar rifnaði upp í óveðrinu í gær. Vatn flæddi inn í húsið og stóðu starfsmenn í ströngu við að bjarga verðmætum.

Iðnaðarmenn hafa í allan dag unnið að því að laga þak Egilshallarinnar en stór hluti af þakdúknum rifnaði upp þegar veðurofsinn gekk yfir landið í gær.

„Um átta leytið þá rifnaði hérna af um 40% af þakinu,“ segir Páll Bjarnason sviðstjóri fasteignaumsýslu Regins. Páll segir blásara einnig hafa fokið af þakinu og nokkra hættu hafa skapast. „Sem betur fer þá gerðist þetta snemma morguns og fáir á ferli. Í framhaldi þá reyndum við að tryggja öryggi og tæmdum hérna bílastæði, “ segir Páll. Þá lokaði lögreglan nærliggjandi vegum. Upp úr klukkan tvö í gær komust svo menn upp á þakið og var þá reynt að setja plast yfir.

Síðdegis fór að rigna og þá tók vatn að leka inn í húsið. Starfsfólk stóð þá í ströngu við að bjarga verðmætum innandyra.

„Þetta var hérna svona hressilega innisturta. Það er eiginlega besta orðið. Það fór bara að leka af krafti og hérna mikil læti í veðrinu. Við gripum bara allt tiltækt, bala, bjórfötur og tuskur og sloppa og svona gerðum það sem við gátum en þetta fór betur en á horfðist samt," segir Jóhannes Ásbjörnsson einn eigenda Keiluhallarinnar í Egilshöll. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×