Körfubolti

Frank Booker að spila sig inn í íslenska landsliðið?

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Frank Booker í leiknum gegn Texas Tech í gær.
Frank Booker í leiknum gegn Texas Tech í gær. vísir/getty

Frank Aron Booker átti sinn besta leik á tímabilinu í bandaríska háskólakörfuboltanum í gær þegar lið hans, Oklahoma Sooners, vann Texas Tech í Big 12-deildinni, 79-75, eftir framlengingu.

Frank Aron kom inn af bekknum og skoraði 17 stig, en hann hitti úr fjórum af átta þriggja stiga tilraunum sínum og setti niður fimm víti í fimm tilraunum. Þá stal hann tveimur boltum og gaf tvær stoðsendingar.

Þessi tvítugi bakvörður var kjörinn maður leiksins á heimasíðu Oklahoma, en hann spilaði 26 mínútur leiknum og var næst stigahæstur í liðinu.

Frank Aron er sonur Francs Bookers sem spilaði með ÍR, Val og Grindavík á árunum 1991 til 1995. Hann er gjaldgengur í íslenska landsliðið og gaf það út á dögunum að hann vildi fara með strákunum okkar til Berlínar á EM í sumar.

Craig Pedersen, þjálfari Íslands, bauð Frank Aroni á æfingar síðasta sumar en hann komst ekki vegna anna í skólanum.

„Það yrði að sjálfsögðu heiður fyrir mig að spila fyrir íslenska landsliðið og ef á mig yrði kallað myndi því kalli vera svarað,“ sagði hann í viðtali við karfan.is á dögunum.

Ef Frank Aron heldur áfram að spila svona verður erfitt fyrir Craig Pedersen að horfa framhjá honum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.