Handbolti

Hlegið að mér er ég reyni að tala frönsku

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
20 mörk. Karen var atkvæðamikil í leikjunum tveimur gegn Ítalíu og skoraði alls 20 mörk. Ísland mætir Makedóníu í Laugardalshöllinni annað kvöld.
20 mörk. Karen var atkvæðamikil í leikjunum tveimur gegn Ítalíu og skoraði alls 20 mörk. Ísland mætir Makedóníu í Laugardalshöllinni annað kvöld. fréttablaðið/ernir
Karen Knútsdóttir fer fyrir íslenska landsliðinu í handbolta sem stendur í ströngu þessa dagana. Liðið keppir um að komast upp úr forkeppni HM 2015 og í umspilsleikina sem fara fram í vor. Stelpurnar unnu tvo sigra á Ítalíu í síðustu viku og þurfa eitt stig í tveimur leikjum gegn Makedóníu sem fara fram á næstunni, sá fyrri í Laugardalshöllinni annað kvöld.

Staða Íslands í riðlinum er góð. Liðið er á toppnum með fjögur stig, rétt eins og Ítalía sem fékk stigin sín fyrir að leggja Makedóníu tvívegis að velli í október. Einfaldur útreikningur gefur í skyn að Ísland ætti að eiga góðan möguleika á landa stiginu annað kvöld – miðað við pappírinn góða.

„Ég held að þú getir tekið þennan pappír og hent honum í ruslið,“ sagði hún og hló. „Það kom mér mjög á óvart að Ítalía hafi unnið Makedóníu, sem er mikil handbolta þjóð og á leikmenn í stórum liðum í Evrópu. Okkur skilst að gamli þjálfarinn sé aftur tekinn við liðinu og að hann hafi fengið nokkrar stjörnur til að koma aftur í landsliðið. Þetta verður því allt annað lið en mætti Ítalíu og ég á von á mun erfiðara verkefni en við fengum í síðustu leikjum.“

Frábær vörn og markvarsla

Karen hrósaði sérstaklega varnarleik íslenska liðsins í sigrunum tveimur gegn Ítalíu og ekki síst frammistöðu markvarðarins Florentinu Stanciu.

„Flora er frábær markvörður en hún fékk mikla hjálp frá vörninni. Í gegnum tíðina hefur oft vantað stöðugleika í varnarleikinn okkar en nú hefur hann staðið mjög þéttur í 120 mínútur,“ segir Karen sem er ánægð með stöðu liðsins nú eftir erfitt ár.

„Við misstum marga leikmenn vegna meiðsla og nokkrir hafa hætt. Einhverjar hafa komið til baka og þá er enn óvissa um sumar,“ segir Karen en ein þeirra sem hefur verið lengi frá er Stella Sigurðardóttir, skyttan öfluga sem er öllu jöfnu fyrirliði landsliðsins.

„Hún kemur vonandi til baka sem fyrst en ég tek hennar vakt á meðan og þá ábyrgð sem fyrirliðastöðunni fylgir.“

vísir/pjetur
Líður vel á rivíerunni

Karen hefur það gott á frönsku rivíerunni þar sem hún býr nú. „Ég get ekki kvartað,“ segir hún í léttum dúr. „Þess fyrir utan líður mér mjög vel hjá félaginu enda allir tekið mér mjög vel,“ segir Karen sem hélt utan í atvinnumsnneku árið 2011 er hún samdi við þýska liðið Blomberg-Lippe. Þar var hún í tvö ár áður en hún hélt til Danmerkur og lék með SönderjyskE í eitt ár.

„Ég hef aldrei kynnst jafn mikilli atvinnumennsku og hér,“ segir hún. „Við erum fjórtán leikmenn í 100 prósent atvinnumennsku og ekki að gera neitt annað en að spila handbolta. Umgjörðin er líka mjög fagmannleg og vel hlúð að bæði líkamlega og andlega þáttinum.“

Hún segist hafa verið í takmörkuðu hlutverki inni á vellinum hingað til á meðan hún hefur fengið tækifæri til að aðlagast nýjum aðstæðum, sem og nýrri menningu og tungumáli.

„Eftir jól verð ég sett í stærra hlutverk en helsta vandamálið hefur verið tungumálið þar sem ég er eini leikmaður liðsins sem ekki talar frönsku. Það tala þó allir ensku og því margir sem geta hjálpað mér,“ segir Karen sem hefur verið í tungumálakennslu í haust.

„Ég skil ýmislegt sem sagt er á æfingum en þær hlæja bara að mér ef ég reyni að tala eitthvað sjálf,“ segir hún og hlær sjálf. „Ég er í fullu fjarnámi frá háskóla í London en ætla að minnka við mig í mars til að geta náð góðum tökum á frönskunni.“

Hugurinn gæti leitað annað

Karen er 24 ára og á því langan feril fyrir höndum kjósi hún að spila áfram. Hún á þó erfitt með að sjá fyrir sér að handboltinn verði áfram í aðalhlutverki hjá henni næsta áratuginn eða svo.

„Ég er ein af þeim sem eru alltaf að gera nýjar áætlanir. Ég er nú með tveggja ára samning við Nice og líður ótrúlega vel. Því vil ég klára þann samning og svo væri jafnvel opin fyrir því að gera annan tveggja ára samning. En að honum loknum verð ég búin með námið og þá gæti ég trúað því að hugurinn muni leita annað,“ segir hún.

„Ég á auðveldara að sjá fyrir mér að ég verði í þessu næstu fimm árin en ekki tíu. Það þætti mér of mikið. Mig langar líka að ná langt á öðrum sviðum í lífinu en ég ætla að njóta handboltans á meðan ég get – hitt kemur þegar það kemur,“ segir Karen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×