Skoðun
Unnur Brá Konráðsdóttir

Heilbrigðisáætlun

Unnur Brá Konráðsdóttir skrifar

Biðlistar eftir hjúkrunarrýmum fyrir aldraða hafa um nokkurt skeið verið langir. Eftirspurn eftir slíkum rýmum mun fara vaxandi enda mun öldruðum fjölga mjög á næstu árum og áratugum.

Aðstaða þeirra einstaklinga sem bíða eftir hjúkrunarrými í dag er misjöfn en hluti hópsins er inniliggjandi á sjúkrahúsum landsins sem leiðir af sér meiri kostnað en ef hjúkrunarrými væri til staðar. Skortur á hjúkrunarrýmum leiðir því af sér aukinn kostnaður í kerfinu og fjármunir ríkisins nýtast ekki sem skyldi. Auk þess er óvissan um hvenær viðunandi úrræði fæst óþolandi bæði fyrir viðkomandi einstakling og aðstandendur.

Við síðustu fjárlagagerð var samþykkt tillaga fjárlaganefndar um að veita 200 milljónum króna til þess að fjölga hjúkrunarrýmum á landsbyggðinni án þess að leggja í nýframkvæmdir. Heilbrigðisráðherra var síðan falið að koma þeim fjármunum í notkun en víða á hjúkrunarheimilum landsins voru til staðar auð herbergi sem nú eru nýtt. Verkefnið skilaði bæði betri nýtingu á þeirri fjárfestingu sem lagt hefur verið í og styttingu biðlista. Ljóst er að þessi fjárveiting dugir ekki ein og sér til þess að leysa málið til framtíðar og ljóst að leggja þarf í fjárfestingar.

Við mat á því hversu mörg hjúkrunarrými þurfa að vera til staðar þarf að skoða kerfið í heild. Það skiptir máli hvernig heilsugæslan starfar og með hvaða hætti heimahjúkrun er sinnt. Það skiptir máli fyrir einstaklinga sem geta verið lengur heima að hafa öfluga heimahjúkrun og að hægt sé að komast í hvíldarinnlögn á hjúkrunarheimili þegar þannig stendur á. Það skiptir einnig máli fyrir framtíðaruppbyggingu LSH og heilbrigðisstofnanna á landsbyggðinni hvernig hjúkrunarheimilin starfa og hvaða kröfur eru gerðar til aðstöðu og þjónustu þar. Allir þessir mikilvægu þættir þurfa að spila saman og nauðsynlegt er að stjórnvöld hafi heildaryfirsýn yfir málaflokkinn.

Besta leiðin til að takast á við uppbyggingu heilbrigðiskerfisins til framtíðar er að gera áætlanir varðandi uppbyggingu og fjárfestingu í heilbrigðiskerfinu líkt og tíðkast t.d. varðandi samgöngumál. Markmið slíkrar áætlunar er að nýta fjármuni skattborgara skynsamlega og veita þeim sem á þurfa að halda góða þjónustu. Ég mun á haustþingi leggja fram þingsályktunartillögu þess efnis að slík áætlun verði unnin af heilbrigðisráðherra og lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og samþykktar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.