Enski boltinn

Umdeilt rautt spjald og sigurmark í uppbótartíma á Anfield | Myndband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Liverpool fagna sigurmarki Lovren.
Leikmenn Liverpool fagna sigurmarki Lovren. Vísir/Getty
Dejan Lovren var hetja Liverpool sem tryggði sér sæti í 8-liða úrslitum ensku deildabikarkeppninnar með 2-1 sigri á Swansea í kvöld.

Gylfi Þór Sigurðsson var ekki með Swansea í kvöld vegna meiðsla en gestirnir frá Wales komust yfir með marki Marvin Emnes á 65. mínútu. Markið var einkar glæsilegt en Emnes skorði með viðstöðulausu skoti úr teignum.

Mario Balotelli hóf leikinn á varamannabekknum í kvöld en kom inn á sem varamaður. Honum tókst að jafna metin með sínu öðru marki á tímabilinu er hann stýrði fyrirgjöf frá Fabio Borini á hægri kantinum í netið af stuttu færi.

Það var svo nóg um að vera í uppbótartíma leiksins en lætin hófust á 90. mínútu þegar Federico Fernandez fékk rautt spjald fyrir tæklingu á Philippe Coutinho. Gestirnir mótmæltu spjaldinu mjög en högguðu ekki ákvörðun dómarans.

Stuttu síðar kom svo sigurmarkið. Coutinho tók aukaspyrnu á vinstri kantinum og sendi boltann á fjærstöng þar sem varnarmaðurinn Lovren skallaði boltann í netið og tryggði heimamönnum sætan sigur.

B-deildarliðin Fulham og Derby áttust svo við á Craven Cottage í Lundúnum. Heimamenn komust yfir, 2-0, en Derby átti ótrúlega endurkomu og vann að lokum, 5-2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×