Innlent

70% vilja óbreytt veiðigjöld

Brjánn Jónasson skrifar

Mikill meirihluti landsmanna er andvígur því að lækka veiðigjöld á útgerðina eins og ríkisstjórnin áformar, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2.

Alls eru 70,6 prósent þeirra sem afstöðu taka í könnuninni andvíg því að lækka veiðigjaldið en 29,4
prósent eru hlynnt því að lækka gjaldtökuna.

Meirihluti stuðningsmanna allra annarra flokka en Sjálfstæðisflokksins er andvígur því að lækka veiðigjöldin. Alls eru 59 prósent þeirra sem myndu kjósa Framsóknarflokkinn nú andvíg áformum ríkisstjórnarinnar en 41 prósent vill lækka gjöldin.

Um 39,5 prósent stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins eru andvíg því að lækka gjöldin en 60,5 prósent eru því fylgjandi.

Afstaða stuðningsmanna annarra flokka er afgerandi. Á bilinu 86 til 90 prósent stuðningsmanna Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna eru andvíg lækkun gjaldanna, og 74 prósent stuðningsmanna Pírata.

Hringt var í 1.677 manns þar til náðist í 800 samkvæmt lagskiptu úrtaki hinn 26. og 27. júní. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir búsetu og aldri. Spurt var: Á að lækka veiðigjaldið eins og ríkisstjórnin áformar að gera? Alls tóku 73,3 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.