Skoðun

Er til orka fyrir álver í Helguvík?

Inga Sigrún Atladóttir skrifar
Í Fréttablaðinu þann 13. júní skrifar Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur, grein um fyrirhugað álver í Helguvík. Kristjáni er tíðrætt um „skipulagt og slóttugt sjónarspil öfgafólks og rauðgrænna fótgönguliða sem hamast gegn álveri í Helguvík“.

Ég er eini sveitarstjórnarmaðurinn á Suðurnesjum sem opinberlega hefur spurt gagnrýninna spurninga um álver Norðuráls í Helguvík. Ég hlýt því að taka orð Kristjáns til mín.

Gagnrýni mín er ekki vegna þess að ég vilji ala á ótta og loka á lýðræðislega og upplýsta umræðu meðal almennings eins og Kristján heldur fram, heldur vegna þess að mér finnst mikilvægt að ræða allar hliðar málsins. Mér finnst mikilvægt að það sé öllum ljóst hvaða afleiðingar álver í Helguvík hefur á umhverfi og orkuauðlindir svæðisins.

Kristján telur borðliggjandi að yfirdrifin orka sé til staðar. Hann nefnir þó ekki hvaðan orkan á að koma en ég vænti þess að hann sé að tala um háhitasvæðin á Reykjanesi sem eru nefnd í umhverfismati fyrir álverið.

Það er ekki bara ég sem hef heyrt efasemdaraddir um að næg orka sé til staðar. Sveitarstjórnarmenn frá öllum sveitarfélögum á Suðurnesjum sátu fund í samvinnunefnd um svæðisskipulag Suðurnesja með Jónasi Ketilssyni, starfsmanni Orkustofnunar, í október 2010. Þar kom fram að mikil óvissa væri í rannsóknum Orkustofnunar og óraunhæft að ná þeirri orku út úr svæðinu sem áætlanir gera ráð fyrir. Jónas taldi að margt benti til að Eldvörp væru nú þegar fullnýtt, í Sandfelli væri líklega stór hluti kaldur og Krísuvíkursvæðið og Sveifluháls væri það flókið og margbrotið svæði að fyrirliggjandi rannsóknir gætu ekki gefið fullnægjandi mynd af möguleikum þess.

Mér finnst mikilvægt að þessi rödd fái að heyrast í umræðunni og menn eins og Kristján takist á við þessar fullyrðingar með rökum.

Ég vil ræða þessi mál út frá framtíðarhagsmunum almennings. Ég vil að fólk geti rætt um álver í Helguvík á forsendum staðreynda og raka en gleypi ekki við órökstuddum yfirlýsingum og útúrsnúningum vegna ótta við fordæmingu eða atvinnumissi.




Skoðun

Sjá meira


×