Körfubolti

Ein óheppnasta körfuboltakona landsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Meiðslasaga Berglindar, lengst til hægri, er löng
Meiðslasaga Berglindar, lengst til hægri, er löng Fréttablaðið/Stefán

Berglind Gunnarsdóttir er ein efnilegasta körfuboltakona landsins og búin að vera lengi í stóru hlutverki hjá Snæfelli þrátt fyrir að vera ekki orðin tvítug. Það er jafnframt erfitt að finna óheppnari leikmann því eftir krossbandsslit og tvær hnéaðgerðir hefur hún glímt við það að fara mörgum sinnum úr axlarlið á þessu tímabili.

Berglind fór enn á ný úr axlarlið í leik á móti KR um helgina. „Þetta er mjög sárt," segir Berglind.

„Það er enginn búinn að afskrifa neitt. Ég er að fara í myndatöku á morgun (í dag) og þá ráðfæri ég mig við lækni í leiðinni. Þá kemur líklega í ljós hvert framhaldið verður. Þetta er orðið frekar slæmt þegar þetta er líka farið að gerast í svefni. Það er því ekki eins og það þurfi mikil átök til," segir Berglind sem fékk fyrst högg á öxlina síðasta sumar.

„Svo gerðist þetta fyrst almennilega í leik á móti Grindavík í byrjun tímabilsins. Þá ráðfærði ég mig við lækni og við keyptum hlíf. Svo hélt þetta áfram að gerast og ég tók því langa pásu fram að áramótum og fór bara að styrkja öxlina," segir Berglind en það breytti því ekki að þetta hefur þrisvar sinnum hent eftir áramót.

Snæfellsliðið saknar Berglindar mikið en liðið tapaði ekki leik í byrjun tímabils meðan hún spilaði á fullum styrk.

„Við erum frekar fáliðaðar og megum ekki við miklum meiðslum," segir Berglind en hún skoraði 14,5 stig í leik áður en hún fór fyrst úr axlarlið í leik. „Ég er svo sem orðin vön því að sitja á bekknum því ég er búin að vera svo mikið í meiðslum. Það er því ekki í fyrsta skiptið sem ég þarf að gera það," segir Berglind enda einstaklega óheppin. „Það er eins og ég taki öll meiðsli liðsins á mig. Ég er búin að fara í tvær hnéaðgerðir og svo gerist þetta. Þetta er orðinn ágætis pakki," segir Berglind.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.