Skoðun

Heræfingarnar burt!

Steinunn Þóra Árnadóttir skrifar
Á síðustu misserum hafa friðarsinnar fylgst vel með framgöngu borgarstjórnar Reykjavíkur í friðar- og afvopnunarmálum. Núverandi meirihluti hefur það yfirlýsta markmið að Reykjavík skuli vera friðarborg og sú stefna er ekki bara í orði heldur einnig í verki. Borgarstjóri hefur lýst því yfir að hvers kyns heræfingar séu óæskilegar í borgarlandinu og það sama gildir um heimsóknir herflugvéla og herskipa.

Valdsvið borgarinnar til að framfylgja þessari stefnu er þó óljóst. Íslensk lög þegja þunnu hljóði þegar kemur að heræfingum, sem þó hafa illu heilli margoft verið haldnar hér á landi. Sá sem hyggst opna pylsuvagn eða skipuleggja skátamót þarf að afla sér hvers kyns leyfa og samþykkis frá viðkomandi sveitarfélagi en umfangsmiklar heræfingar með truflun, röskun og mengunarhættu kalla ekki á neitt slíkt.

Tæki fyrir sveitarstjórnir

Árið 2008 flutti ég, ásamt nokkrum félögum mínum í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, frumvörp til breytinga á skipulags- og byggingarlögum annars vegar en lögum um mat á umhverfisáhrifum hins vegar. Gerðu þau ráð fyrir að heræfingar, þar með talið lágflugsæfingar, væru skipulags- og umhverfismatsskyldar. Þar með væri sveitarfélögum gert kleift að setja slíkri starfsemi stólinn fyrir dyrnar.

Í umsögn um málið lýsti Eyþing, samband sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, stuðningi við markmið frumvarpsins. Er kunnara en frá þurfi að segja að íbúar við Eyjafjörð hafa fengið sinn skerf af háværum lágflugsæfingum erlendra orrustuþotna á liðnum árum.

Því miður náðu frumvörp þessi ekki fram að ganga á sínum tíma. Fyllsta ástæða er hins vegar til að draga þau fram á ný. Þar með væri friðelskandi sveitarstjórnum sem ekki vilja sjá vígtól í lögsögu sinni gefið öflugt tæki í hendurnar.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.