Innlent

Ætla að kæra Tal og Flix til lögreglunnar

Valur Grettisson skrifar
þjónusta Tal býður upp á tæknilegar lausnir svo viðskiptavinir geti nálgast Netflix og Hulu.
þjónusta Tal býður upp á tæknilegar lausnir svo viðskiptavinir geti nálgast Netflix og Hulu. Fréttablaðið/Anton
„Við munum kæra þetta,“ segir Snæbjörn Steingrímsson, framkvæmdastjóri samtaka myndréttarhafa á Íslandi (SMÁÍS), en samtökin ætla að kæra símafyrirtækið Tal sem og forsvarsmenn heimasíðunnar Flix.is, fyrir brot á lögum um höfundarrétt.

Snæbjörn segir málið borðleggjandi, enda höfundarréttarlögin skýr. Þar kveður meðal annars á um að það sé óheimilt, án samþykkis rétthafa, að sniðganga tæknilegar ráðstafanir til að vernda höfundarrétt.

Snæbjörn telur að með því að bjóða upp á tæknilegar lausnir til þess að nálgast efnisveitur, svo sem Netflix eða Hulu, séu Tal og Flix að gegn þessu lagaákvæði.

Flix hefur verið minna í umræðunni en forsvarsmenn síðunnar auglýsa grímulaust tæknilegar lausnir gegn þóknun svo fólk geti nálgast efnisveiturnar. Það sama á við um Tal.

„Það kemur okkur mjög á óvart að svona flott fyrirtæki eins og Tal sé að bjóða upp á svona lagað, en við munum kæra það sem og Flix.is,“ segir Snæbjörn sem telur engan vafa á sekt fyrirtækjanna eftir að hafa skoðað málið.

Fréttablaðið hafði samband við nokkra lögfræðinga sem eru sérfræðingar á sviði laga um hugverkaréttindi. Einn þeirra sagði símafyrirtækið stuðla að því eða hvetja til þess að einstaklingurinn villi á sér heimildir um það hvar hann nýtir þjónustu efnisveitunnar.

Með þessu sé gengið á svig við ákvörðun rétthafans um svæðisskiptingu en efnisveiturnar hafa ekki gert samning um birtingu á efninu hér á landi eins og fram hefur komið í fjölmiðlum.

Annar lögmaður sem Fréttablaðið ræddi við sagði mögulegt að fyrirtækin séu brotleg gegn lögum þar sem forsvarsmenn þeirra viti að þjónustan sem þeir bjóða upp á verði notuð til þess að nálgast efnisveitur á ólöglegan hátt.

Forsvarsmaður Istorrent var til að mynda dæmdur í Hæstarétti Íslands árið 2010 á þeim forsendum. Enginn lögfræðingur þorði þó að fullyrða að hér væri um að ræða klárt brot á lögum um höfundarrétt.

Aðspurður hvenær Smáís muni kæra fyrirtækin, svarar Snæbjörn því til að það verði innan skamms. Það þurfi að undirbúa svona mál vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×