Innlent

Vítissódi brenndi 50 prósent af líkamanum

„Þegar við vorum að byrja að afla okkur gagna um óupplýst lögreglumál á Íslandi þá fundum við gamalt viðtal í Helgarpóstinum frá 1982 við geðlæknana Gísla H. Guðjónsson og Hannes Pétursson en þeir voru þá að ljúka nýlegri rannsókn um morð á Íslandi. Fjögur morðmál reyndust vera óupplýst og þau verða öll til umfjöllunar í þáttunum,” segir Brynja Dögg Friðriksdóttir, framleiðandi Óupplýstra lögreglumála, nýrrar þáttaraðar í umsjón Helgu Arnardóttur, sem hefst næstkomandi sunnudag.

Það voru þó takmarkaðar upplýsingar sem komu fram í viðtalinu. Elsta málið var frá 1945, tvö frá 7. áratug síðustu aldar og það fjórða frá 8. áratugnum. ,,Þar sem málin voru svona gömul þá er afar hæpið að rannsakendur þeirra séu á lífi. Við vorum hvorki með nöfn né upplýsingar um vettvang þessara glæpa. Það var því ekkert annað í stöðunni en að verja einum degi eða svo í að ‘google-a’ sig niður á þessi mál. Og það gerðum við.”

Hrottaleg líkamsárás dregur mann til dauða
Morðið á Birni Stefánssyni er eitt þessara mála og fyrsta málið sem tekið er fyrir í Óupplýstum lögreglumálum. Björn Stefánsson fór í kvöldgöngu eitt sumarkvöld í júní 1963 en varð fyrir hrottalegri líkamsárás og lést af sárum sínum nokkrum dögum síðar.

Björn var ókvæntur og barnslaus og bjó með systur sinni. Hann var vel liðinn reglumaður og náinn fjölskyldu sinni.

„Björn fer út um kvöldið og það er í raun mjög lítið vitað um ferðir hans og hver örlög hans voru nákvæmlega. Það virðist sem það hafi verið ráðist á hann í kjallara Hafnarbúða sem voru þá verbúðir. Árásarmaðurinn gengur í skrokk á honum og hellir yfir hann vítissódalegi sem brennir um 50% af líkama hans. Hann var með meðvitund fyrst um sinn en greindi aldrei frá því sem raunverulega gerðist. Eftir andlát hans hafði maður samband við lögregluna sem greindi frá ákveðnum upplýsingum sem benda til þess að þetta hafi mögulega verið fyrsti hatursglæpur á Íslandi,” segir Brynja.

Fyrsti þáttur Óupplýstra lögreglumála verður sýndur næstkomandi sunnudag kl. 20:45 á Stöð 2. Umsjónarmaður þáttanna er Helga Arnardóttir.

Hér að ofan má sjá kynningarstiklu þáttarinsAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.