Erlent

Kínverjar spurðir út í mannréttindi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Mannréttindabrotum Kínverja mótmælt fyrir utan höfuðstöðvar Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf í morgun.
Mannréttindabrotum Kínverja mótmælt fyrir utan höfuðstöðvar Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf í morgun. Mynd/AP
Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna kallaði fulltrúa kínverskra stjórnvalda á sinn fund í Genf í morgun. 

Þar viðurkenndu Kínverjarnir að sitthvað vanti upp á, að mannréttindaástandið hjá þeim sé í góðu lagi, en lögðu samt áherslu á að margt hafi áunnist með því að draga úr fátækt, gera endurbætur á dómskerfinu og veita þjóðernisminnihlutum vernd.

„Okkur er fullkomlega ljóst að Kína stendur enn frammi fyrir mörgum verkefnum og vandamálum þegar kemur að því að styðja og vernda mannréttindi,” sagði Wu Hailong, fulltrúi kínverska utanríkisráðsins, á fundi Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í morgun.

Fundurinn var liður í úttekt ráðsins á mannréttindaástandinu í Kína, en slík úttekt er gerð á fjögurra ára fresti fyrir öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna.

Mannréttindasamtök notuðu tækifærið í morgun til að vekja athygli á mannréttindabrotum í Kína, einkum gagnvart Tíbetum og Úígúrum. Einnig voru gagnrýndar harkalegar aðgerðir kínverskra stjórnvalda gegn einstaklingum, sem staðið hafa í baráttu fyrir mannréttindum í Kína.

Í Mannréttindaráðinu eiga sæti fulltrúar 47 ríkja. Á fundinum í morgun vöktu mörg þeirra máls á bágri stöðu kvenna, fatlaðra og þjóðernisminnihluta í Kína og kröfðust úrbóta. Einnig var farið fram á að Kínverjar gerðu úrbætur í dómskerfinu, dauðrefsingum verði fækkað og mannréttindasinnum ekki varpað í fangelsi jafn oft og nú tíðkast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×