Innlent

Staða barna með málþroskaraskanir: "Tjáskipti eru mannréttindi"

Hrund Þórsdóttir skrifar

Eins og við sögðum frá í vikunni hefur borgarstjórn samþykkt tillögu um að borgin taki við málefnum barna með málþroskaraskanir af ríkinu í þeim tilgangi að koma þjónustunni inn í skóla og leikskóla. Hátt í 500 börn bíða nú eftir talþjónustu og er biðtíminn rúmlega ár.

Þórunn Sæunn Úlfsdóttir talmeinafræðingur kveðst viss um að margir væru tilbúnir að færa þjónustuna inn í skólana. „Samkvæmt skýrslu sem gerð var gerð um stöðu barna með tal- og málþroskafrávik, sem kom út í fyrra, þá var það niðurstaðan að foreldrar óska eftir að fá þjónustuna inn í nærumhverfi barnanna,“ segir hún.

Þórunn gerir ráð fyrir að aukinn kostnaður myndi fylgja því að færa þjónustuna inn í skólana. „Og það þarf að tryggja að það sé hægt að sinna nægilega mörgum börnum og það sé aðstaða til staðar í skólunum og leikskólunum. Það eru ýmiss konar úrlausnaratriði sem á eftir að ræða.“

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins sinnti greiningu barna með alvarleg frávik í málþroska til ársins 2006 en síðan þá hefur engin ein stofnun séð um að sinna þessum börnum og segir Þórunn heildarskipulag vanta. Langur biðtími sé alvarlegt vandamál en gera megi ráð fyrir að hann styttist með væntanlegri tilkomu fleiri talmeinafræðinga í stéttina.

Á næsta ári fer fram alheimsátak, International Communications Project og mun það teygja anga sína til Íslands. „Átakið felst í að gera ráðamenn meðvitaða um að tjáskipti eru mannréttindi,“ segir Þórunn að lokum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.