Innlent

Stálu fötum fyrir 1,6 milljón króna

Kristján Hjálmarsson skrifar
Geysir í Haukadal. Piltarnir stálu fötum úr versluninni fyrir 1,6 milljónir króna.
Geysir í Haukadal. Piltarnir stálu fötum úr versluninni fyrir 1,6 milljónir króna.
Tveir ungir menn voru handteknir í vikunni fyrir að stela fatnaði fyrir um 1,6 milljónir króna í ferðamannaversluninni við Geysi á sunnudaginn var. Mennirnir fóru nokkrar ferðir inn í verslunina en fatnaðurinn sem þeir stálu náðist til baka, lítið eða að mestu óskemmdur, að því er segir í tilkynningu frá lögreglu.

Rannsóknarlögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu handtóku fyrst ungan mann á mánudag í tengslum við rannsókn máls. Við húsleit á dvalarstað hans fannst fatnaður sem rakinn var til gripdeildar í ferðamannaversluninni á Geysi síðastliðinn sunnudag.

Við yfirheyrslu hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Selfossi játaði maðurinn að hafa borið vörurnar út úr versluninni við annan mann. Sá var einnig handtekinn og viðurkenndi aðild. Mennirnir gerðu sér nokkrar ferðir inn í verslunina til að bera út fatnaðinn.

Mennirnir eru báðir frá Lettlandi, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni, og hafa dvalið hér á landi í ein tvö ár. Að lokinni rannsókn verður málið sent ákæruvaldi til meðferðar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×