Innlent

Hef meiri tíma með hestunum

Hjónin Einar og eiginkonan Sigrún Ingólfsdóttir, "fjármálaráðherra Íshesta“ til margra ára eins og Einar orðar það, eiga fimm börn og fjórtán barnabörn og búa í Garðabænum. "Án Sigrúnar væri þetta fyrirtæki ekki til,“ segir Einar.
Hjónin Einar og eiginkonan Sigrún Ingólfsdóttir, "fjármálaráðherra Íshesta“ til margra ára eins og Einar orðar það, eiga fimm börn og fjórtán barnabörn og búa í Garðabænum. "Án Sigrúnar væri þetta fyrirtæki ekki til,“ segir Einar. fréttablaðið/gva

Einar Bollason er einn stofnenda ferðaþjónustufyrirtækisins Íshesta sem fagnaði þrjátíu ára afmæli sínu í gær. Hann lét nýlega af starfi framkvæmdastjóra og sagði Kjartani Guðmundssyni frá áformum sínum, ferlinum í körfunni og erfiðri einangrunarvist.

„Ætli stærsta breytingin sé ekki sú að núna förum við hjónin að geta komist á hestbak aftur. Á sínum tíma stofnuðum við Íshesta til að geta verið í hestamennsku, en stundum okkar með hestunum hefur fækkað afar mikið síðustu tíu árin eða svo. Við erum bæði við góða heilsu og hlökkum til að ríða út í sumar og ferðast um landið okkar. Margir hafa spurt okkur hvers vegna við ákváðum að selja fyrirtækið á uppgangstímum eins og nú, en ég spyr á móti hvort ekki sé rétt að njóta lífsins meðan maður enn getur. Við höfum áður fengið tilboð sem við höfum ekki haft áhuga á, en stundum koma tilboð sem ekki er hægt að hafna," segir Einar Bollason sem nýlega lét af starfi framkvæmdastjóra Íshesta, frumkvöðlafyrirtækis í hestatengdri ferðaþjónustu, en Íshestar fögnuðu þrjátíu ára afmæli sínu í gær með pompi og prakt.

Nýr framkvæmdastjóri Íshesta, Fannar Ólafsson, fór fyrir litlum hópi fjárfesta sem keyptu fyrirtækið í haust af 25 hluthöfum, þar á meðal Einari og Sigrúnu Ingólfsdóttur eiginkonu hans sem áttu um þriðjungshlut. Einar hefur þó ekki skilið alveg við starfsemi Íshesta því að ósk nýrra eigenda gegnir hann starfi stjórnarformanns næstu tvö árin og er viðloðandi fyrirtækið sem hann stofnaði ásamt fleirum árið 1982.

„Ég þarf ekki að mæta í vinnuna á hverjum degi en er í þónokkru starfi við að halda í hendina á Fannari," segir Einar og bætir við að honum lítist mjög vel á nýja eigendur og að skiptin fari vel í hann. „Fannar uppfyllti öll skilyrðin. Hann er alinn upp í sveit, hestamaður af guðs náð, mikill stjórnandi og ekki síst var hann miðherji og fyrirliði hjá KR í körfuboltanum. Reyndar heldur hann ekki með Boston Celtics í NBA heldur einhverju furðulegu liði sem ég man ekki hvert er. Ef hann væri Los Angeles Lakers-maður hefði þetta ekki komið til greina," segir Einar og hlær, en hann er sem kunnugt er einn harðasti stuðningsmaður KR og Boston Celtics sem sögur fara af.

Tilviljun réði för

Einar segist stoltur af því að hafa átt hlut í að ryðja brautina fyrir hestatengda ferðaþjónustu hér á landi með stofnun Íshesta, en fyrirtækið var fyrst sinnar tegundar til að bjóða upp á skipulagðar hestaferðir með fyrir fram ákveðnum dagsetningum sem auglýstar voru í bæklingum og víðar. Það var þó fyrir einskæra tilviljun að fyrirtækið komst á laggirnar.

„Helgi Ágústsson vinur minn, sem lengi var sendiherra í Englandi, Bandaríkjunum og víðar, spurði mig hvort ég og Sigrún konan mín gætum ekki farið með sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, aðmírálinn á Keflavíkurflugvelli og fleira fólk í stutta hestaferð um Suðurland. Ég hafði samband við Guðmund Birki Þorkelsson, körfuknattleiksmann sem ég hafði þjálfað hjá HSK, sem jafnframt var bóndi í Miðdal og saman söfnuðum við saman öllum okkar hestum og fórum í þriggja daga ferð. Fólkið var svo ánægt að það spurði hvort við vildum ekki fara með þau yfir Kjöl sumarið eftir. Við vorum bara kennararæflar sem höfðum í raun varla efni á að standa í hestamennsku og slógum til, þótti það fín leið til að afla peninga til að fjármagna áhugamálið. Árni Björgvinsson og Jenný Sigmundsdóttir vinafólk okkar komu inn í þetta með okkur, en í fyrstu ferðinni yfir Kjöl voru átta farþegar og tuttugu starfsmenn, svo það varð skiljanlega ekki mikill afgangur. En við héldum áfram og í dag eru það um 25.000 manns sem nýta sér einhvern anga af þjónustu okkar á ári," segir Einar, en blað þótti brotið í sögu ferðamála hér á landi þegar Hestamiðstöð Íshesta í Hafnarfirði var opnuð árið 2000. Icelandair, dótturfélög þess og fleiri aðilar komu að þeim framkvæmdum og breyttust Íshestar þá í raun úr frumherjafyrirtæki yfir í hlutafélag.

Einar segir fyrirtækið ávallt hafa lagt mikla áherslu á umhverfismál og var hann til að mynda formaður umhverfisnefndar Samtaka ferðaþjónustunnar um árabil. Meðal annars vegna þess og gæðastefnu fyrirtækisins hafa Íshestar getið sér gott orð á erlendum vettvangi, sem Einar segir öllu skipta þegar kemur að árangri á sviði ferðaþjónustu. „Það skiptir engu máli hversu mikið við auglýsum eða í hve mörgum sýningum við tökum þátt. Einn óánægður viðskiptavinur getur hæglega eyðilagt margra ára og margra milljóna markaðsstarf. Viðskiptavinurinn hefur alltaf rétt fyrir sér og ef eitthvað kemur upp þá kippum við því bara í liðinn. Þessu verða aðilar í íslenskri ferðaþjónustu að gera sér grein fyrir, en í heildina held ég að við Íslendingar getum verið stolt af okkar ferðaþjónustu. Svartasti bletturinn á henni í dag eru öll þessi leyfislausu fyrirtæki og svarta atvinnustarfsemin sem er gífurleg, hvort sem hún er meiri í ferðaþjónustu en í öðrum atvinnugreinum eða ekki. Á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar fyrir tveimur vikum kom fram að samtökin hafa eytt fleiri milljónum og ráðið sérstakt starfsfólk til að leita þessi fyrirtæki uppi. Það er ótrúlegt að atvinnuvegasamtök þurfi að standa í svona nokkru sem ætti að vera hlutverk stjórnvalda, en þó gott að einhver geri þetta því þetta er risavandamál."

KR-ingur en þykir vænt um Val

Framkvæmdastjórinn fyrrverandi er borinn og barnfæddur vesturbæingur, fæddur á Vesturgötu 38 þar sem hann bjó ásamt foreldrum sínum, sem skildu þegar Einar var fimm ára, í annarri af tveimur íbúðum á efri hæð hússins. Í hinni bjó afi Einars, en á neðri hæðinni Páll Einarsson, hæstaréttardómari og fyrsti borgarstjóri Reykjavíkur. Síðar festu hjónin Jón Baldvin Hannibalsson og Bryndís Schram kaup á húsinu og enn síðar tónlistarkonan Björk Guðmundsdóttir.

KR-ingurinn hóf íþróttaferilinn í ÍR því enginn körfuknattleikur var stundaður í Vesturbænum á þeim tíma. „Með ÍR varð ég Íslandsmeistari árið 1959, en sá titill var í raun ólöglegur því ég var bara sextán ára í þriðja flokki og í þá daga mátti ekki spila upp fyrir sig. Það hvarflaði bara ekki að nokkrum manni að spyrja því ég var svo stór," rifjar Einar upp. Í kjölfarið fylgdu nærri tuttugu titlar sem leikmaður og þjálfari. Lengst af var hann hjá KR en var einnig viðloðandi Þór Akureyri, Hauka og fleiri félög, auk þess sem hann lék með landsliði Íslands og þjálfaði liðið með hléum á árunum 1974 til 1987.

Við síðustu aldamót var Einar svo valinn sem leikmaður í lið aldarinnar og sem þjálfari aldarinnar af nefnd skipaðri valinkunnum körfuboltaspekingum. Svo skemmtilega vill til að Sigrún, eiginkona Einars, var einnig valin í lið aldarinnar í handknattleik, en hún lék um árabil með Val og varð Norðurlandameistari með íslenska handknattleikslandsliðinu árið 1964.

„Sigrún er ofsalega mikill Valsari og ég ber líka mikinn hlýhug til félagsins og leiðist þessi illindi milli sumra stuðningsmanna Vals og KR, þótt smá rígur sé auðvitað bara skemmtilegur. Við fórum mikið saman á völlinn í gamla daga og það var dálítið erfitt í kringum 1972 þegar Valur var með sitt gullaldarlið í fótboltanum. Þá varð ég oft svo fúll þegar KR tapaði fyrir Val að á endanum stakk Sigrún upp á því að við slepptum því bara að fara á leiki liðanna, sem við gerðum," segir Einar og hlær.

Geirfinnsmálið var klúður

Árið 1976 sat Einar, ásamt þremur öðrum, saklaus í 105 daga í einangrun í Síðumúlafangelsinu eftir að Erla Bolladóttir og aðrir sakborningar í Geirfinnsmálinu höfðu bendlað hann við málið. Í október síðastliðnum skipaði innanríkisráðherra starfshóp til að fara yfir gögn í málinu og var Einar meðal þeirra sem leitað var til í þeim tilgangi að varpa frekara ljósi á málið og rannsókn þess á sínum tíma.

„Ég settist niður með starfshópnum í kaffi og kökur og ræddi við þetta fólk sem var alveg yndislegt. Eftir smá stund varð ég þó að standa upp og fara fram, næstum fjörutíu árum síðar, því það þyrmdi yfir mig. Þetta er nokkuð sem fer ekki í burtu heldur verður maður að læra að lifa með því," segir Einar og bætir við að hann hafi aldrei lesið staf í málsgögnum eftir áfallið sem einangrunarvistin olli honum. Hann hefur kosið að tjá sig fremur lítið um málið hin síðustu ár.

„Mér fannst komið nóg af þessu og sérstaklega núna síðustu árin þegar margir, til dæmis Erla hálfsystir mín sem ég hef skiljanlega haft lítil samskipti við, tjá sig um málið. Auðvitað veit ég ekkert um það hvort þetta fólk sem var dæmt er sekt eða saklaust. Aftur á móti veit ég að það er ekki saklaust að því að hafa logið upp á fjóra saklausa menn. Fyrir það átti það sannarlega skilið að sitja inni í einhver ár, en það er eins og margir gleymi því alltaf. Allt þetta mál var hvílíkt klúður og það er ótrúlegt að engir hausar skuli hafa verið látnir fjúka í kjölfar þess."

David Stern fúll á öræfum

Einar var kennari í 23 ár og sá aðallega um dönskukennslu, fyrst í Gagnfræðaskóla Vesturbæjar, sínum gamla skóla, en einnig á Akureyri og víðar en lengst í Flensborg. Hann lagði körfuboltaskóna á hilluna árið 1979 og margir sem yngri eru muna fyrst eftir honum sem sjónvarpsmanni á Stöð 2, en þar lýsti hann NBA-leikjum við góðan orðstír um árabil.

„Það var mjög gaman að eiga þátt í þessari miklu körfuboltasprengju sem varð í kjölfarið á því að Stöð 2 hóf að sýna NBA-leiki," segir Einar og bætir við að téða sprengingu megi rekja til Jónasar R. Jónssonar, fyrrum umboðsmanns íslenska hestsins og þáverandi starfsmanns Stöðvar 2. „Jónas var á ferðinni í New York og labbaði sér einfaldlega inn á skrifstofu NBA-deildarinanr og spurði hvort hann mætti ekki senda út leiki. Þetta var ótrúlegt. Við vorum fjórða landið sem sýndum NBA-leiki á eftir Bandaríkjunum, Frakklandi og Filipseyjum og njótum þess enn að hafa verið svona fljót af stað. David Stern, yfirmaður deildarinnar, hefur sagt mér frá því að það vakti mikla öfund hjá stærri þjóðum þegar litla Ísland var ávallt sett í öndvegi, til dæmis þegar við fórum út til að lýsa Stjörnuleikjunum á sínum tíma. Stern hefur reyndar komið til Íslands með konunni sinni þar sem þau gistu í tjaldi á Norðurlandi í þrjár vikur. Konan hans er mikill náttúruunnandi en Stern kallinn var ekki sérlega hrifinn af þessu. Hann var hundfúll yfir að hírast heillengi í einhverju tjaldi uppi á öræfum."

Stressaður á KR-leikjum

Mynd/Sveinn Þormóðsson

„Ég er í Þjóðkirkjunni og ég er í KR. Ekkert endilega í þessari röð," segir Einar hlær þegar talið berst að ástríðu hans fyrir félaginu sem hann lék með og þjálfaði í áraraðir. Eftir að ferlinum lauk hefur hann ávallt fylgst vel með árangri KR í körfunni og mætir á flesta leiki. „Ég verð oft hrikalega stressaður á leikjum, sérstaklega í úrslitakeppninni, og get varla horft. Oft er ég á fleygiferð um húsið og stundum bíð ég úti og fæ einhvern til að segja mér hvernig staðan er."

KR hóf titilvörn sína í úrslitakeppninni á fimmtudagskvöld með sigri á liði Tindastóls. Einar segir baráttuna verða erfiða í vor, KR hafi á að skipa mörgum góðum leikmönnum en stundum vanti baráttu í liðið. „Það vantar smá Fannar í þá," segir hann og vísar til fyrirliða liðsins á síðasta ári sem tók við af Einari sjálfum sem framkvæmdastjóri Íshesta.

„En á góðum degi getum við unnið hvern sem er."
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.