Lífið

Gera hryllingsmynd fyrir vestan

Baldur Páll Hólmgeirsson leikstýrir vestfirskri hrollvekju ásamt Elfari Loga Hannessyni og Eyþóri Jóvinssyni.
Baldur Páll Hólmgeirsson leikstýrir vestfirskri hrollvekju ásamt Elfari Loga Hannessyni og Eyþóri Jóvinssyni.

Baldur Páll Hólmgeirsson, leikstjóri og kvikmyndatökumaður, vinnur nú að gerð nýrrar stuttmyndar sem ber heitið Gláma. Myndin er hrollvekja og gerist á Hótel Núpi í Dýrafirði á Vestfjörðum.

Myndin er sögð byggja á sönnum atburðum og fjallar um kokk sem fenginn er til að setja upp veislu á sumarhóteli að vetri til. Einhver misskilningur verður og þegar kokkurinn mætir á staðinn uppgötvar hann það að hann er þar einn og þá byrjar fjörið. Gláma, nýtt vestfirskt kvikmyndafélag, stendur að baki myndinni en með aðalhlutverk fer Elfar Logi Hannesson. Handritið sömdu Baldur Páll Hólmgeirsson, Elfar Logi Hannesson og Eyþór Jóvinsson.

Baldur Páll segir Elfar félaga sinn hafa átt hugmyndina að handritinu sem tók eina kvöldstund að skrifa. „Við settumst þrír niður og sömdum handritið á einni kvöldstund. Það gekk mjög snarpt fyrir sig enda erum við allir mjög sammála og samrýndir."
Tökur á myndinni hófust fyrir hálfum mánuði og lauk þeim síðastliðna helgi. Nú á aðeins eftir að klippa myndina og semja tónlistina við hana. „Við tókum frá tvær helgar í tökur og eyddum þeim á Hótel Núpi. Dvölin á hótelinu var mjög draugaleg. Ég varð þó ekki var við neitt undarlegt en mér skilst að fólk hafi orðið vart við einhver skringilegheit í húsinu."

Ekki er farið að huga að frumsýningu myndarinnar ennþá en Baldur vonar að hægt verði að sýna hana í bíóhúsinu á Ísafirði um páskana. „Það er ekki víst að við náum að klára myndina fyrir þann tíma, en það væri gaman ef það tekst."- sm
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.