Erlent

„Sænska leiðin“ hefur ekki skilað árangri

Í skýrslu SÞ er mælst til þess að lagarammi vegna sölu á kynlífi verði endurskoðaður þar sem núverandi lög skili ekki árangri.
Í skýrslu SÞ er mælst til þess að lagarammi vegna sölu á kynlífi verði endurskoðaður þar sem núverandi lög skili ekki árangri. NordicPhotos/AFP
Tilraun sænskra stjórnvalda til að stemma stigu við vændi með því að gera kaup á kynlífsþjónustu refsiverð hefur ekki skilað tilætluðum árangri, hvorki í baráttu gegn mansali né gegn útbreiðslu HIV-veirunnar. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna sem kynnt var á ráðstefnu í Washington í síðasta mánuði.

Skýrslan ber yfirskriftina HIV og löggjöf – Áhættur, réttindi og heilsa, er unnin af sérstakri nefnd sem Fernando Cardoso, fyrrum forseti Brasilíu, fer fyrir. Takmarkið var að bregða upp raunhæfri mynd af ástandi mála og koma með tillögur í baráttu alþjóðasamfélagsins gegn HIV.

Þar segir í einum kafla að með strangri löggjöf þar sem kaup og sala vændis sé refsiverð sé staða þess sem selur kynlífsþjónustu oft afar slæm. Fólk í þeirri stöðu geti ekki snúið sér til lögreglu og er jafnvel ofsótt af lögreglu, sem verður til þess að kynlífsiðnaðurinn verði enn frekar dulinn.

Í umfjöllun um „sænsku leiðina“, sem er í gildi hér á landi og víðar, segir að slíkt fyrirkomulag hafi engu skilað, þar sem tíðni vændis hefur ekki minnkað og ofbeldi og mansal milli landa hafi aukist. Á móti hafi sárafáir hlotið dóma fyrir kaup á vændi.

Mælast höfundar skýrslunnar til þess að lög sem banni vændi verði afnumin. Í stað þeirra verði gerður greinarmunur á þeim sem þvinga fólk út í vændi og hins vegar þeim sem selja vændi af frjálsum vilja.

Löggæsla skuli leggja áherslu á að uppræta fyrri hópinn, en aðstæður hinna síðarnefndu verði bættar með aukinni heilsugæslu og félagslegri þjónustu. - þjAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.