Innlent

Telur að 200 milljarða skuldabaggi geti hvílt á Íbúðalánasjóði

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Bjarni Benediktsson spurði forsætisráðherra út í mál Íbúðalánasjóðs í dag.
Bjarni Benediktsson spurði forsætisráðherra út í mál Íbúðalánasjóðs í dag.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, telur að skuldbindingar Íbúðalánasjóðs umfram eignir geti numið allt að 200 milljörðum króna ef allt fer í óefni. Hann spurði Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra út í málið við upphaf þingfundar í dag.

„Til hvaða aðgerða er raunhæft að grípa til, til þess að lágmarka áhættu almennings af lágri eiginfjárstöðu?" spurði Bjarni. Hann spurði líka hvort skynsamlegt væri að reka Íbúðalánasjóð með nánast ekkert eigið fé en með ríkisábyrgð. Bjarni benti á að fasteignalánin væru ekki áhættulaus starfsemi.

Vandinn mjög mikill


„Það liggur fyrir að vandi Íbúðalánasjóðs er mjög mikill og á honum verður að taka og það hefur ríkisstjórnin verið að gera," svaraði Jóhanna. Hún benti á að á árinu 2010 hefðu verið lagðir inn 33 milljarðar í Íbúðalánasjóð og nú hefði verið ákveðið að leggja inn 13 milljarða. „Það er ljóst að þessi vandi er kerfislægur og hann varð til árið 2004 eins og fram hefur komið," sagði Jóhanna. Þá hafi verið gripið til aðgerða sem hafi skapað þá uppgreiðsluhættu sem nú steðjaði að Íbúðalánasjóði, en lán útlán sjóðsins eru uppgreiðanleg en ekki skuldir hans. Þennan vanda þyrfti að skoða en líka vandann sem fylgir því að íbúðir í eigu Íbúðalánasjóðs eru nú vel á annað þúsund og þeim mun líklega fjölga.

Óþarfi að fara í sakbendingar

„Ég tel að það sé mjög mikilvægt að greina vandann, hver rót hans er en ekki fara í miklar sakbendingar. Það væri þá nærtækt af mér að benda á að hæstvirtur forsætisráðherra gerði ekkert í málinu þegar hún var félagsmálaráðherra frá árinu 2007," sagði Bjarni þá. Aðalmálið væri að lágmarka áhættu almennings vegna þessarar stöðu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.