Körfubolti

Íslandsmeistarar Keflavíkur sendar snemma í sumarfrí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Íslandsmeistaratitilinn verður ekki áfram í Keflavík í kvennaboltanum en það var ljóst eftir að Haukakonur sópuðu deildarmeisturum Keflavíkur út með 75-52 stórsigri í Toyota-höllinni í Keflavík í kvöld. Haukaliðið vann alla þrjá leikina í undanúrslitaeinvíginu og er því komið í lokaúrslitin um titilinn.

Haukaliðið hefur farið á kostum síðan Tierny Jenkins kom til liðsins en þetta var sjötti sigur liðsins í röð með hana innanborðs. Besti leikmaður liðsins í kvöld var þó Jence Rhoads sem skoraði 31 stig í leiknum þar af 23 í fyrri hálfleik þegar Haukaliðið gerði út um leikinn. Jenkins var með 16 stig og 15 fráköst.

Jence Rhoads skoraði tíu stig á fyrstu fimm mínútum leiksins og hjálpaði Haukaliðinu að komast í 13-6. Keflavíkurliðið náði að minnka muninn í eitt stig, 17-18, fyrir lok fyrsta leikhluta.

Haukarnir skoruðu sextán fyrstu stigin í öðrum leikhluta og voru því komnar yfir í 34-17. Uppgjöfin var hreinlega algjör í liði Keflavíkur sem tapaði leikhlutanum á endanum 27-6 sem þýddi að Haukar voru 45-23 yfir í hálfleik. Jence Rhoads var komin með 23 stig í hálfleik.

Sigur Hauka var aldrei í hættu í seinni hálfleiknum enda bættu þær aðeins í með því að vinna þriðja leikhlutann 16-12. Keflavíkurkonur voru löngu búnar að gefast upp og fara því snemma í sumarfrí í ár.


Keflavík-Haukar 52-75 (17-18, 6-27, 12-16, 17-14)

Keflavík: Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 8, Pálína Gunnlaugsdóttir 8/5 fráköst, Helga Hallgrímsdóttir 7/5 fráköst, Eboni Monique Mangum 6, Jaleesa Butler 6/15 fráköst, Sara Rún Hinriksdóttir 4, Hrund Jóhannsdóttir 4, Sandra Lind Þrastardóttir 3/4 fráköst, Aníta Eva Viðarsdóttir 2, Telma Lind Ásgeirsdóttir 2, Soffía Rún Skúladóttir 2.

Haukar: Jence Ann Rhoads 31/11 fráköst/5 stoðsendingar/5 stolnir, Tierny Jenkins 16/15 fráköst, Gunnhildur Gunnarsdóttir 12, Margrét Rósa Hálfdanardóttir 9, María Lind Sigurðardóttir 4, Auður Íris Ólafsdóttir 2, Sara Pálmadóttir 1.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.