Innlent

Dýrfiskur hleypir fjöri í Flateyri

Kristján Már Unnarsson skrifar
Dýrfiskur er að tífalda eldi regnbogasilungs í Dýrafirði, sem kallar á fleiri störf á Vestfjörðum, mest við fiskvinnslu á Flateyri. Eftir langvarandi erfiðleika í atvinnumálum á Flateyri sjást nú merki um að farið sé að rofa til.

Eins og víða annarsstaðar á Vestfjörðum þá er það fiskeldi sem er að hjálpa til. Í fiskiðju sem áður tilheyrði þrotabúi Eyrarodda hefur nú aftur færst líf en í frétt Stöðvar 2 er sýnt frá vinnslu regnbogasilungs á vegum nýs félags, Arctic Odda, sem jafnframt hefur keypt fiskeldisstöðina Dýrfisk á Þingeyri.

Eiríkur Finnur Greipsson, fjármálastjóri Arctic Odda, segir að verið sé að byggja upp fiskeldið úr 200 tonna slátrun upp í 2.000 tonna slátrun á næstu tveimur árum. „Þannig að ég held að megi segja það að hér sé hafin góð og hægfara uppbygging, vonandi mjög traust," segir Eiríkur Finnur.

Dýrfiskur er með eldiskvíar á Dýrafirði og seiðaeldi á Tálknafirði og hefur félagið nú einnig sótt um að leyfi til að ala regnbogasilung í Önundarfirði og í Ísafjarðardjúpi. Systurfélag er jafnframt að hasla sér völl í hefðbundnum fiskveiðum, gerir út einn bát og annar er á leiðinni. Starfsmenn fyrirtækjanna nú orðnir yfir þrjátíu talsins og boðar Eiríkur Finnur að þeim muni fjölga ört á næstu mánuðum.

Það er til marks um breytta tíma að hér er það eldisfiskur sem treystir fiskvinnsluna og því freistandi að spyrja hvort fiskeldið muni reisa við byggð á Vestfjörðum. Eiríkur Finnur telur erfitt að spá um framtíðina en segir þó að eigendur Arctic Odda og Dýrfisks hafi mikla trú á því að góð framtíð sé í eldi á þessu svæði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×