Lífið

Skemmtigarður fyrir börnin

Hrefna Björk Sverrisdóttir og Bjarni Sigurðsson opna skemmtigarð fyrir börnin.
Hrefna Björk Sverrisdóttir og Bjarni Sigurðsson opna skemmtigarð fyrir börnin. Mynd/Valli

„Við sáum svona innanhússafþreyingargarða fyrir börn þegar við bjuggum í Noregi og gripum strax hugmyndina,“ segir Hrefna Björk Sverrisdóttir, en hún hefur opnað leiksvæðið Ævintýragarðinn ásamt kærasta sínum Bjarna Sigurðssyni.

Ævintýragarðurinn er skemmtigarður fyrir börnin í bland við kaffihús fyrir foreldrana. „Okkur fannst vanta eitthvað í líkingu við þetta hingað heim til Íslands. Athvarf þar sem bæði foreldranir og börnin geta skemmt sér saman óháð veðri, enda er varla hægt að reiða sig á það hér á Íslandi,“ segir Hrefna Björk en þetta er í fyrsta sinn sem hún og Bjarni fara í rekstur á borð við þennan. Hrefna hefur verið að sjá um framleiðslu á gamanþáttum Steinda JR og Bjarni er gítarleikari rokksveitarinnar Mínus.

„Við sérpöntuðum flott leiktæki frá Kína og erum með leiksvæði fyrir alla aldurshópa.“
Staðurinn skiptist í leiksvæði fyrir krakkana með hoppukastala, rennibrautum, boltalandi og fleiri leiktækjum. Einnig er kaffihús þar sem foreldrarnir geta slappað af og vafrað á netinu og 70 fm leiksvæði þar sem yngstu börnin geta leikið sér undir eftirliti foreldranna. Í Ævintýragarðinum eru herbergi sem hægt er að panta fyrir afmælisveislur.
„Við höfum trú á að þetta sé gaman fyrir alla. Undanfarna daga hafa vinir og vandamenn fengið að koma og skoða og allir ganga skælbrosandi héðan út.“

Ævintýragarðurinn er staðsettur í Skútuvogi 4 og hægt er að fá fleiri upplýsingar á vefsíðunni www.aevintyragardurinn.is.

- áp
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.