Enski boltinn

Lucas spilar ekki meira á tímabilinu - Aquilani á leiðinni?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lucas er hér borinn af velli í leiknum gegn Chelsea.
Lucas er hér borinn af velli í leiknum gegn Chelsea. Nordic Photos / Getty Images

Stuðningsmenn Liverpool fengu slæm tíðindi í dag þegar það var staðfest að Brasilíumaðurinn Lucas Leiva væri með slitið krossband í hné. Hann spilar því ekki meira með liðinu á tímabilinu.

Leiva meiddist í leik Liverpool gegn Chelsea í enska deildabikarnum eftir samstuð við Juan Mata, leikmann Chelsea.

Rannsóknir leiddu í ljós að krossbandið í vinstra hné væri slitið og þarf hann að fara í aðgerð vegna þessa.

Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, hefur þegar kallað Jonjo Shelvey aftur til félagsins en hann var í láni hjá Blackpool. Samkvæmt enskum fjölmiðlum kemur einnig til greina að kalla á Alberto Aquilani til baka úr láni en hann er nú að spila með AC Milan á Ítalíu.

Lucas hefur verið einn besti leikmaður Liverpool á tímabilinu en hann var valinn leikmaður ársins fyrir frammistöðu sína á síðustu leiktíð.

„Ég er viss um að ég komi sterkari til baka og nái þeim árangri sem mig dreymir um í Liverpool-treyjunni," skrifaði hann á Twitter-síðuna sína í dag.

Ekki er ólíklegt að Dalglish muni reyna að kaupa miðjumann til liðsins nú þegar opnað verður fyrir félagaskipti um áramótin.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.