Körfubolti

Sveinbjörn sleit krossband í Grindavíkurleiknum - ekki meira með í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveinbjörn Claessen.
Sveinbjörn Claessen. Mynd/Stefán
Sveinbjörn Claessen, fyrirliði ÍR í Iceland Express deild karla í körfubolta, mun ekki spila með liðinu meira á þessu tímabili eftir að í ljós kom að hann sleit krossband í leik á móti Grindavík á dögunum.

Sveinbjörn sleit krossband í hægra hné en fyrir tveimur árum lenti Sveinbjörn í sömu meiðslum á vinstra hné og var frá æfingum allt það tímabil. Sveinbjörn missti einnig af stórum hluta síðasta keppnistímabils vegna meiðsla.

„Það er hverjum íþróttamanni erfitt, sem ætlar sér langt, að upplifa slík meiðsli, hvað þá í tvígang á skömmum tíma. Það þarf ekki að hafa mörg orð um hversu erfitt verður að fylla skarð Sveinbjörns í ÍR-liðinu en hann er mikill íþróttamaður og mun koma síðar til leiks, enn sterkari. Hans verður sárt saknað í vetur," segir í fréttatilkynningu frá ÍR-ingum.

Sveinbjörn Claessen, sem er 25 ára bakvörður, var búinn að vinna sér sæti í íslenska landsliðinu þegar hann meiddist fyrir tveimur árum. Hann var með 13,5 stig og 6,0 stoðsendingar að meðaltali í fyrstu tveimur leikjum ÍR í Iceland Express deildinni í vetur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×