Innlent

ESB aðild í dóm þjóðar nokkrum mánuðum fyrir kosningarnar 2013

Þorbjörn Þórðarson skrifar


Aðildarviðræðum við ESB verður hraðað og er stefnt að því að þjóðaratkvæðagreiðslan verði nokkrum mánuðum fyrir þingkosningar sem eru fyrirhugaðar í apríl 2013.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, fundaði með forystumönnum ESB á ríkjaráðstefnunni í júní þegar aðildarviðræður hófust formlega. Össur hefur lýst því yfir að hraða beri viðræðunum.

Hefur Stefani Fule, stækkunarstjóra Evrópusambandsins, verið gerð grein fyrir þeirri afstöðu íslenskra stjórnvalda að hraða aðildarviðræðum með það fyrir augum að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamning nokkrum mánuðum fyrir þingkosningarnar 2013? „Honum var gerð skýr grein fyrir þeirri afstöðu okkar að við vildum hraða viðræðunum og taka inn þessa tvo stóru kafla, sjó og land. En það var ekki gert með það fyrir augum að hafa þjóðaratkvæði á einhverjum tilteknum tíma. Hins vegar hefur það legið fyrir að við vildum gjarnan að málinu yrði lokið með þeim hætti að það væri bæði hægt að hafa öfluga kynningu og ljúka þjóðaratkvæði fyrir næstu alþingiskosningar."

Er ekki æskilegt að þjóðaratkvæðagreiðslan um aðildarsamninginn fari fram nokkrum mánuðum fyrir næstu þingkosningar til þess að það sé skýrt í hugum kjósenda að þessi tvö mál blandist ekki saman? „Jú, það væri mjög æskilegt ef hægt væri að koma því í kring. Ef það verður hægt að ljúka samningunum nægilega snemma, þá er þetta það sem menn stefna að. Ég hef lagt áherslu á það til dæmis að menn vinni eins hratt og hægt er hér heima, ekki bara að fiskveiðimálunum eins og unnið er að, heldur einnig landbúnaðarmálunum," segir Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra. thorbjorn@stod2.isAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.