Innlent

Geir segist eiga við ofurefli að etja

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Geir Haarde við upphaf blaðamannafundarins í dag. Mynd/ Sigurjón.
Geir Haarde við upphaf blaðamannafundarins í dag. Mynd/ Sigurjón.
„Ég vísa öllum ákæruatriðum á bug. Þau eru fráleit, sérstaklega í ljósi þess að ákvarðanir minnar ríkisstjórnar í aðdraganda bankahrunsins reyndust réttar. Ákæruskjalið er þannig samið að nausynlegt er að láta á það reyna hvort það standist réttarfarslegar reglur,“ segir Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, á blaðamannafundi, sem nú fer fram. Hann segist ætla að krefjast frávísunar í málinu við fyrsta tækifæri og að um pólitíska atlögu sé að ræða.

 

Geir boðaði til blaðamannfundarins í dag í tilefni af því að á morgun verður mál Alþingis gegn honum þingfest fyrir Landsdómi. „Þingfestingin á morgun þýðir það að þá eru fyrstu pólitísku réttarhöld Íslandssögunnar um það bil að hefjast," segir Geir. Hann sagði að með landsdómsmálinu væru valdhafarnir að nýta tækifæri til að ná sér niðri á gömlum pólitískum andstæðingi.

 

Geir segir að málið sé byggt þannig upp gegn sér að um ofurefli sé að etja. Því hafi verið ákveðið stofna félag sem hafi það að markmiði meðal annars að safna fé til að standa straum af kostnaði við varnir. Sá kostnaður yrði mjög mikill. Andri Árnason er ekki eini lögmaðurinn sem Geir hefur á sínum snærum heldur hefur Andri fleiri lögfræðinga sér til aðstoðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×