Körfubolti

Ægir og Tómas fara í sama skóla í Bandaríkjunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ægir Þór Steinarsson.
Ægir Þór Steinarsson.
Fjölnisstrákarnir Ægir Þór Steinarsson og Tómas Heiðar Tómasson hafa ákveðið að fara í sama háskóla í Bandaríkjunum næstu fjögur árin en þeir hafa samþykkt að spila með Newsberry college í Norður-Karólínu sem er í 2. deild bandaríska háskólaboltans.

Ægir ákvað að fara til Dave Davis í Newsberry þrátt fyrir að hafa fengið áhuga frá stórum 1. deildarskólum eins og Gonzaga og Davidson en Davis, þjálfari Newsberry-skólaliðsins, talar um það í frétt á heimasíðu skólans að Ægir umræddir skólar hafi verið á eftir Ægi.

Þeir Ægir og Tómas hafa verið í stóru hlutverki með Fjölni í Iceland Express deildinni undanfarin tímabil og Ægir Þór hefur verið kosinn besti ungi leikmaður deildarinnar síðustu tvö ár.

Ægir var með 16,1 stig og 8,9 stoðsendingar að meðataltali í Iceland Express deildinni í vetur en Tómas var með 13,1 stig og 2,5 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Áður en strákarnir fara út verða þeir í stóru hlutverki með 20 ára landsliði Íslands sem tekur þátt í Evrópukeppninni í Bosníu í sumar. Ægir og Tómas hafa spilað saman upp öll landsliðin og urðu meðal annars Norðurlandameistarar saman í tvígang, 2007 og 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×