Körfubolti

Hrafn og Fannar fetuðu í fótspor Gunnars og Einars Bolla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Einar Bollason var að sjálfsögðu mættur þegar KR-ingar tryggðu sér titilinn í gær.
Einar Bollason var að sjálfsögðu mættur þegar KR-ingar tryggðu sér titilinn í gær. Mynd/Anton
Hrafn Kristjánsson, þjálfari KR, og Fannar Ólafsson, fyrirliði KR, fetuðu í gærkvöldi í fótspor Gunnars Gunnarssonar og Einars Bollasonar þegar KR-ingar urðu Íslandsmeistarar. Þetta er nefnilega í fyrsta sinn í 32 ár sem KR vinnur tvöfalt í karlakörfunni, það er verður Íslandsmeistari og bikarmeistari á sama tímabilinu.

Gunnar Gunnarsson þjálfaði KR-liðið og Einar Bollason var fyrirliði þegar KR-ingar urðu síðast tvöfaldir meistarar árið 1979. KR-liðið vann þá titlana tvo með fimm daga millibili í marsmánuði, fyrst unnu þeir 79-72 sigur á ÍR í bikarúrslitaleiknum 25. mars og fimm dögum seinna tryggðu þeir sér Íslandsmeistaratitilinn með því að vinna 77-75 sigur á Val í hreinum úrslitaleik um titilinn.

Sá leikur var kveðjuleikur Einars Bollasonar sem er sá eini í sögu KR sem hefur unnið tvöfalt bæði sem þjálfari og svo sem fyrirliði. Einar Bollason hafði gert KR að tvöföldum meisturum sem þjálfari tímabilið 1973-74.

Frá árinu 1979 höfðu KR-ingar orðið þrisvar sinnum Íslandsmeistarar (1990, 2007 og 2009) og tvisvar sinnum bikarmeistarar (1984 og 1991) en aldrei náð því að vinna báða titlana á sama tímabili. Hrafni tókst hinsvegar að enda þá bið á sínu fyrsta ári sem þjálfari KR.

Tvöfaldir meistarar í karlakörfunniKR 2011 (Hrafn Kristjánsson þjálfaði liðið)

Snæfell 2010 (Ingi Þór Steinþórsson þjálfaði liðið)

Keflavík 2004 (Falur Harðarson og Guðjón Skúlason)

Keflavík 2003 (Sigurður Ingimundarson)

Njarðvík 2002 (Friðrik Ragnarsson)

Keflavík 1997 (Sigurður Ingimundarson)

Keflavík 1993 (Jón Kr. Gíslason)

Njarðvík 1987 (Valur Ingimundarson)

Valur 1983 (Tim Dwyer)

Valur 1980 (Tim Dwyer)

KR 1979 (Gunnar Gunnarsson)

Ármann 1976 (Ingvar Sigurbjörnsson)

KR 1974 (Einar Bollason)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×