Körfubolti

Fannar þekkir ekkert annað en að vinna úrslitaeinvígi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fannar Ólafsson í baráttunni gegn leikmönnum Keflavíkur.
Fannar Ólafsson í baráttunni gegn leikmönnum Keflavíkur. Mynd/Daníel
Fannar Ólafsson, fyrirliði KR, er nú kominn í úrslitaeinvígi í fimmta sinn á ferlinum og í hin fjögur skiptin hefur hann unnið Íslandsmeistaratitilinn þar af tvisvar sem fyrirliði KR-liðsins á undanförnum fjórum árum. Fyrsti leikur KR og Stjörnunnar í úrslitaeinvígi Iceland Express deildar karla er klukkan 19.15 í DHL-höllinni í kvöld og verður hann í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Fannar fór í lokaúrslitin með Keflavík 1999 og 2004 og svo með KR-liðinu 2007 og 2009. Fannar hefur alls leikið 18 leiki í úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitilinn og liðin hans hafa unnið 12 af þessum 18 leikjum. Fannar er með 10,3 stig og 6,6 fráköst að meðaltali á 23,8 mínútm í þessum leikjum sínum í úrslitaeinvígum um titilinn.

Fannar tók fyrst þátt í lokaúrslitum með Keflavíkurliðinu vorið 1999. Hann var þá með 8,0 stig og 3,4 fráköst að meðaltali á 15,6 mínútum þegar Keflavík vann sigur á nágrönnum sínum úr Njarðvík í oddaleik.

Fannar fór einnig með Keflavík í lokaúrslitin vorið 2004 en Keflavík vann þá 3-1 sigur á Grindavík í úrslitunum. Fannar var með 8,3 stig og 9,5 fráköst að meðaltali á 28.5 mínútum.

Fannar var fyrst í hlutverki fyrirliða í úrslitunum 2007 þegar hann komst þangað með KR. KR tapaði fyrsta leiknum á móti Njarðvík en vann svo þrjá í röð og tryggði sér titilinn. Fannar var með 10,0 stig og 8,5 fráköst að meðaltali á 27,0 mínútum.

Fannar var síðan síðast í lokaúrslitunum fyrir tveimur árum þegar KR tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn eftir sigur á Grindavík í oddaleik. Fannar var með 14,6 stig og 6,0 fráköst að meðaltali á 25,8 mínútum. Hann hefur því hækkað meðalskor sitt í hverjum úrslitaeinvígi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×