Innlent

Vindmyllur raunhæfur kostur: Best að virkja á Suðurlandi

Vindorkuver undan vesturströnd Jótlands í Danmörku, nærri Esbjerg. 
fréttablaðið/ap
Vindorkuver undan vesturströnd Jótlands í Danmörku, nærri Esbjerg. fréttablaðið/ap

Suðurlandsundirlendið virðist vera það landsvæði sem hentar hvað best fyrir vindrafstöð hér á landi. Eru þetta niðurstöður rannsóknarhóps sem Landsvirkjun setti nýverið af stað til þess að kanna hvernig undirbúa mætti uppsetningu og rekstur vindrafstöðva á Íslandi.

Starf hópsins er hluti af Icewind, samnorrænu rannsóknarverkefni sem rannsakar mögulegar endurbætur í nýtingu vindorku á Norðurlöndunum. Sérstakri athygli er beint að Íslandi í verkefninu og mögulegri nýtingu vindorku hér á landi. Norræna ráðherranefndin veitti Icewind styrk fyrr á þessu ári að upphæð 12,3 milljóna norskra króna, eða rúmar 230 milljónir íslenskra króna. Veðurstofa Íslands er einnig meðal þeirra sem að verkefninu koma.

Úlfar Linnet, sérfræðingur í orkuathugunum hjá Landsvirkjun, segir að verið sé að skoða möguleikana á vindvirkjun hér á landi mjög alvarlega. Þátttaka og vægi hópsins í Icewind sýni meðal annars fram á það.
„Tilgangurinn er að Ísland verði samstíga hinum Norðurlöndunum," segir hann. „Við hófum vinnuna okkar á núllpunkti vegna þess að það hefur aldrei verið reist vindmylla hér á landi. En okkur miðar mjög vel."

Í skýrslu iðnaðarráðuneytisins frá því í fyrra kemur meðal annars fram að kostir vindorku séu fyrst og fremst þeir að auð­lindin sé ókeypis og vindrafstöðvar séu nær lausar við mengun. Á móti eru nefnd sjónarmið um að orkuframleiðsla vindorkuvera sé óstöðug, turnarnir skemmi útsýni og að þetta sé dýr leið til orkuframleiðslu.

Vindmyllur framleiða á bilinu 1 til 7 megavött af orku. Úlfar segir Ísland hafa forskot á hin Norðurlandaríkin hvað það varðar, en orka frá einni vindmyllu hér á landi sé að jafnaði um helmingi meiri en víðast erlendis.
„Hugsanlega væri hægt að byrja á því að reisa myllu sem væri 2 megavött," segir hann. „En það góða við Ísland er að ein mylla getur framleitt mun meiri orku heldur en á flestum stöðum erlendis. Mylla hér á landi getur framleitt af fullum krafti um 40 prósent tímans. Það er töluvert hærra hlutfall heldur en víða erlendis, þar sem það er oftast í kringum 30 prósent á sjó og um 20 prósent á landi."
sunna@frettabladid.is
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.