Innlent

Leikskólastjóri segir fullyrðingar formanns leikskólaráðs rangar

Úr safni.
Úr safni.

Leikskólastjóri á ungbarnaleikskólanum Ársól, segir fullyrðingar formanns leikskólaráðs Reykjavíkurborgar rangar um að börn verði tekin inn á leikskólana að öllu óbreyttu fram á haust. Leikskólum sé sniðinn mjög þröngur stakkur og útlit fyrir að fá börn komist inn fyrr en í ágúst. Á annað hundrað börn bíða eftir leikskólaplássi á ungbarnaleikskólum og biðlistar hrannast upp hjá dagforeldrum.

Fréttastofa greindi nýlega frá því að gríðarleg eftirspurn væri eftir barnavistun hjá dagforeldrum og ungbarnaleikskólum á höfuðborgarsvæðinu og biðlistar hrönnuðust upp. Rætt var við dagmóður sem sagði að ástandið myndi versna með vorinu. Sjálf þyrfti hún að vísa frá allt að tíu foreldrum á dag . Í vissum hverfum á höfuðborgarsvæðinu væri nær ómögulegt að fá pláss hjá dagforeldrum.

Berglind Grétarsdóttir leikskólastjóri á ungbarnaleikskólanum Ársól segir ástandið þar engu betra. „Eins og staðan er núna erum 135 börn á biðlista. Að minnsti kosti helmingurinn af þeim hefði þurft að komst að núna um áramótin. Um áramótin komu inn á bilinu 35 til 40 umsóknir og ég sé ekki fram á annað en þetta eigi eftir að aukast," segir Berglind.

Síðasta ár hafi verið metár í fæðingum auk þess sem dagforeldrum hafi fækkað. Til hafi staðið að opna aðra deild fyrir um fimmtíu börn en það hafi verið blásið af vegna efnahagsástandsins. Berglind segir Ragnar Sæ Ragnarsson formann leikskólaráðs hafa sagt að ekki væri þörf á aukadeildum.

„Staðreyndin er bara allt önnur og leikskólar Reykjavíkur eru ekki að taka inn börn í sumar vegna þess að það má ekki ráða sumarstarfsfólk í afleysingar og annað," segir Berlind.

Hún segir fullyrðingar Ragnars um að börn yrðu tekin inn alveg fram á haust rangar. „Staðreyndin er önnur vegna þess að það er mikið aðhald í borginni og það er ekki hægt að taka inn ný börn eða börn af flutningsbiðlistum."
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.