Skoðun

Sölvi Blöndal: Óvenjulega venjulegur Besti

Sölvi Blöndal skrifar

Viku fyrir kosningar er eins og venjulega hlaupin taugaveiklun í fylgismenn stjórnmálaflokkanna sem bjóða fram í Reykjavík. Það er líklega það eina sem telja má venjulegt í konsingarbarráttunni. Öllu öðru virðist hafa verið snúið á haus fyrir tilstuðlan Besta flokksins og formanns hans, Jóns Gnarr. Svo virðist sem algert neyðarástand hafi skapast, svo mikið að sumir hafa jafnvel kallað eftir því að Besti flokkurinn dragi framboð sitt til baka. Annars gæti skapast hætta á því að Reykvíkingar kysu „vitlaust".

En róttæku hjarta mínu til mikillar skelfingar hafa hörðustu árásirnar á Jón Gnarr og Besta flokkinn ekki komið frá lömuðu hægri. Þær hafa komið frá vinstri. Þar hefur formanni Besta verið líkt við forsætisráðherra Ítalíu, Silvio Berlusconi sem mun hafa verið í hópi ríkustu manna Evrópu um býsna langt skeið. Auður Berslusconi nemur um 10 milljörðum bandaríkjadollara. Meðal eigna Berslusconi, sem margsinnis hefur mátt sæta ásökunum um sérhagsmunapólitík og spillingu, eru stærstu einkareknu sjónvarps-, útvarps- og blaðamiðlar Ítalíu. Það er (ekki) leiðum að líkjast. En Berslusconi var árið 1994 og 2001 ekki kosinn til forystu í ítölskum stjórnmálum út á eitthvert grín. Í krafti auðs og valda og gríðarlegs fjölmiðlaveldis fór Berslusconi fram í umboði þeirra sem meira mega sín og hagsmuna þeirra og sinna eigin hefur hann gætt og gerir enn. Með öðrum orðum, pólitík Berlusconi er klassísk pólitík auðs, hagsmuna og valda, eitthvað sem við þekkjum mætavel á Íslandi.

Ef venjuleg pólitík er hagsmunapólitík þá er formaður Besta flokksins aftur á móti allt annað en venjulegur stjórnmálamaður og enn síður auðmaður með fjölmiðlaveldi að baki sér. Að baki Besta standa ekki þeir er meira mega sín heldur ósköp venjulegir Reykvíkingar. Það er ekki auðvelt að skilgreina hugmyndafræði Besta á einfaldan hægri- vinstri kvarða, en þó má benda á að Jón Gnarr hefur skilgreint flokkinn sem stjórnleysingja- og súrrealistaflokk, og sameini það besta úr anarkismanum og súrrealismanum. Ennfremur virðist sem flokkurinn, líkt og hinn sænski Piratpartiet, hafi frjálslynda afstöðu til málefna sem varða markaðinn og frelsi einstaklings til athafna. En það má einnig lesa í yfirlýsingar Besta að umhverfismál og velferðamál séu ofarlega á dagskrá. Framsetning Besta er á vissan hátt þversagnarkennd og póstmódernísk, en hið sama má segja um frammistöðu fimmflokkssins á seinasta kjörtímabili í Reykjavík. Í ljósi þess kemur gott gengi Besta í skoðunarkönnunum ekki á óvart. Þrátt fyrir skringilegheitin og formleysið þá er Besti þrátt fyrir allt óvenjulega venjulegur, nákvæmlega það sem íslensk stjórnmál þarfnast.

Höfundur er meistaranemi í hagfræði við Háskólann í Stokkhólmi og tónlistarmaður.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

TILMÆLI!

Sara E. Þórðardóttir Oskarsson skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.