Innlent

Ætla að hafna tillögu Mannréttindaráðs

Formaður mannréttindaráðs segir engar formlegar tillögur að breytingum hafa verið lagðar fram á fundinum í gær. fréttablaðið/anton
Formaður mannréttindaráðs segir engar formlegar tillögur að breytingum hafa verið lagðar fram á fundinum í gær. fréttablaðið/anton
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í mannréttindaráði lýsa því yfir að tillaga meirihlutans sé óþarfi og flokkurinn muni greiða atkvæði gegn henni í óbreyttri mynd.

Mannréttindaráð fundaði í gær um tillögur að breytingum á samstarfi leik- og grunnskóla og þjóðkirkjunnar. Afgreiðslu málsins var frestað til 3. nóvember.

Sjálfstæðisflokkurinn bókaði tillögu á fundinum þar sem segir að vonast sé til þess að með því að fresta tillögunni geri meirihlutinn sér grein fyrir því að skoða þurfi málið betur með vilja borgarbúa að leiðarljósi.

„Ein af forsendum tillögu meirihlutans var sú að fjölmargar kvartanir hefðu borist vegna heimsókna trúfélaga í skólana, ekki fylgdu þeirri staðhæfingu neinar tölulegar upplýsingar.“

Samkvæmt upplýsingum frá mannréttindaráði hafa alls borist 52 formlegar kvartanir síðan í ágúst 2008. Þar af snúa 22 að samstarfi kirkju og skóla.

Þórey Vilhjálmsdóttir, framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, segir botninn vera dottinn úr tillögunni með tilvísuninni í kvartanir foreldra.

„Upphaflega var farið af stað þegar talið var að mikið væri um þessar kvartanir, en þessi fjöldi getur ekki talist mjög stórt vandamál,“ segir Þórey. „Mér þykir ólíklegt að tillagan nái fram að ganga í óbreyttri mynd sökum skorts á samstöðu. Það er verið að ganga mjög hart fram.“

Margrét Sverrisdóttir, formaður mannréttindaráðs, segir að engar formlegar tillögur að breytingum hafi verið lagðar fram á fundinum og býst ekki við því að miklar tilfærslur verði gerðar á hugmyndinni. „Kannski munum við aðeins skerpa á orðalagi, en ég á ekki von á efnismiklum breytingum,“ segir hún.

Menntamálaráðuneytið lét gera lögfræðiálit á samstarfi þjóðkirkjunnar og grunn- og leikskóla og þar kemur fram að lögmætt sé að kenna trúarbragðafræði sem hluta af námsefni. Telji foreldrar að það eða þátttaka í atburðum og athöfnum fari gegn trúar- eða lífsskoðunum sínum geti þeir sótt um undanþágu fyrir börn sín frá skólaskyldu í slíkum atvikum. sunna@frettabladid.is


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×