Innlent

Ókeypis í Árbæjarsafnið 17. júní

Í Árbæjarsafni verða fallegir þjóðbúningar í aðalhlutverki á 17. júní venju samkvæmt og eru gestir hvattir til að mæta í eigin búningum. Ókeypis verður inn á safnið í tilefni dagsins.

Fjallkonu safnsins verður skautað kl. 14. og geta gestir fylgst með hvernig faldur, faldblæja og spöng eru sett upp og borin við skautbúning, segir í tilkynningu.

Tvær nýjar sýningar sem tengjast búningum hafa nýlega verið opnaðar í safninu.

Í Líkn er sýning um þjóðbúninga kvenna á Íslandi og þar má sjá búninga allt frá faldbúningi, sem tíðkaðist á 18. öld, til þjóðbúninga nútímans. Markmið sýningarinnar er að veita fræðslu um helstu gerðir íslensku þjóðbúninganna.

Í Suðurgötu 7 má sjá sýningu sem ber heitið Fjallkonan í nýjum búningi. Þar ber að líta verk níu íslenskra hönnuða sem allir sækja innblástur í íslenska þjóðbúningahefð. Í öndvegi eru þrír búningar: Hátíðarbúningur Sigrúnar Jónsdóttur kirkjulistakonu, peysuföt úr plasti eftir Ásdísi Elvu Pétursdóttur textílhönnuð og endurhönnun íslenska faldbúningsins eftir Öglu Stefánsdóttur fatahönnuð. Einnig eru sýndir skartgripir, skór, húfur og peysubrjóst eftir sex aðra hönnuði sem vísa með einum eða öðrum hætti í þjóðbúningaarfinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×