Íslenski boltinn

Hrefna Huld á leið til Noregs

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hrefna hefur lengst af sínum ferli leikið með KR.
Hrefna hefur lengst af sínum ferli leikið með KR.

Knattspyrnukonan Hrefna Huld Jóhannesdóttir heldur til Noregs í næsta mánuði þar sem henni hefur verið boðið að koma og æfa með norska B-deildarliðinu Grand Bodö.

Hrefna Huld mun vera við æfingar hjá félaginu í nokkra daga og ef liðinu líst vel á hana þá verður henni líklega boðinn samningur.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem félagið ber víurnar í Hrefnu en það bauð henni samning árið 2007 en þá afþakkaði Hrefna pent.

Að sögn Hrefnu ætlar þetta félag sér stóra hluti á næstu leiktíð og stefnan sett á úrvalsdeildarsæti.

Hrefna er ekki ókunn norska boltanum en hún lék með Medkila árið 2004.

Hrefna hefur í sumar leikið með Þrótti í næstefstu deild hér á landi. Hún er búinn að skora 14 mörk í 10 leikjum með liðinu í sumar. Hrefna er samningsbundin Þrótti út leiktíðina.

Hrefna hefur verið ein helsta markadrottning íslenskrar kvennaknattspyrnu um árabil. Hún hefur alls skorað 148 mörk í 173 leikjum í efstu deild. Flest mörk hefur hún skorað fyrir KR (129) en hún hefur einnig skorað fyrir ÍBV (12) og Breiðablik (7).

Hún er fimmti markahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar frá upphafi og vantar aðeins sjö mörk til þess að komast upp í þriðja sætið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.